151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Hér er fleira í húfi en bara nýsköpun vegna þess að í umsögn frá Verkfræðingafélagi Íslands er talað um að verði þetta frumvarp að lögum án nauðsynlegra breytinga sé hætt við að óbætanlegt tjón verði á umhverfi nýsköpunar og hagnýtra tækni- og byggingarrannsókna á Íslandi. Við erum náttúrlega minnt á það daglega í hvers konar landi við búum, hvernig náttúran er hérna og hversu mikilvægt það er að til staðar sé mjög góð þekking á byggingum og þoli bygginga. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili með mér áhyggjum af því að þessi þekking og þetta, mér liggur við að segja stofnanaminni, kunni að vera í uppnámi.