151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Þetta frumvarp er sett fram eins og að óathuguðu máli, líkt og skýrt er rakið í umsögnum og vakið hefur verið máls á hér í fjölmörgum ræðum. Frumvarpið var vanbúið, eins og við Miðflokksmenn vekjum máls á í áliti okkar með vísan til afar gagnlegrar umsagnar Kristjáns Leóssonar sem gjörþekkir þetta málefnasvið. Frumvarpið snýst um að því er virðist eina hugdettu. Hún er sú að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og skapa mikla óvissu, að ekki sé sagt tjón, en óvissu a.m.k. um verkefni hennar í framhaldinu, að ekki sé talað um óboðlega framkomu við starfsfólk stofnunarinnar. Ekki hefur svo mikið sem verið borið við að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir hið nýja einkahlutafélag sem á að taka við hluta af verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar.

Herra forseti. Sem nefndarmaður í atvinnuveganefnd sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar ætla ég að segja það hér að ég tel nauðsynlegt að hv. atvinnuveganefnd komi saman milli umræðna til að fá nánari upplýsingar um þennan þátt málsins, fjárhag einkahlutafélagsins.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vísa aðeins í umsögn Verkfræðingafélags Íslands því að eitt af þeim málum sem vekja miklar áhyggjur er framtíð hagnýtra byggingarrannsókna og um það er sagt í umsögn Verkfræðingafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Lýst er áhyggjum af framtíð hagnýtra byggingarrannsókna sem hefur verið sinnt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) sem nú á að leggja niður. Að mati VFÍ þarf að vera til eining sem sinnir því millistigi sem eðlilega verður milli háskólarannsókna og vöruþróunar fyrirtækja í ríku samstarfi við háskóla og atvinnulíf, á sviði byggingarrannsókna sem og á öðrum sviðum tæknirannsókna, jafnframt því að vera til ráðgjafar og veita sprotafyrirtækjum faglegan stuðning. Einnig er hætt við að erfiðara verði fyrir frumkvöðla og hugmyndaríka einstaklinga að fá grunnaðstoð við að þróa hugmyndir sínar.“

Þetta eru náttúrlega allt saman mjög mikilvægar athugasemdir hjá verkfræðingum sem auðvitað þekkja vel til þessara mála.

Bara til að varpa ljósi á þessar hagnýtu byggingarrannsóknir er hérna í öðru skjali frá Verkfræðingafélagi Íslands svolítil upptalning þegar fjallað er um hagnýtar byggingarrannsóknir. Segir þar, með leyfi forseta:

„Einn af þeim mikilvægu þáttum sem NMÍ (áður Rb) hefur sinnt eru hagnýtar byggingarrannsóknir. Má þar nefna vistvæna steinsteypu, rakaflæði í byggingum, loftgæði innan bygginga, slagregnsáraun auk ótal fleiri þátta sem fjallað hefur verið um í skýrslum og svokölluðum Rb blöðum sem eru öllum aðgengileg án endurgjalds. Samkvæmt áformum stjórnvalda er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) ætlað það hlutverk að sjá um þessa útgáfu í framtíðinni. Draga má í efa að þetta fyrirkomulag henti þar sem HMS er í raun eftirlitsstofnun, ekki rannsóknastofnun.“

Herra forseti. Það er af þessari ástæðu sem við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson vekjum máls á því í minnihlutaáliti okkar, áliti 2. minni hluta sem hér liggur fyrir, að það hefur ekki verið með neinu móti skýrð sú fyrirætlan að vista nýjan samkeppnissjóð hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem ekki er vitað til að hafi reynslu af slíkri starfsemi á meðan til að mynda Tækniþróunarsjóður er vistaður hjá Rannís, eins og þessi sjóður ætti náttúrlega að vera líka.

Herra forseti. Það má vísa sömuleiðis, og ég vil gera það, til umsagnar Rannís. Þar segir, með leyfi forseta:

„Starf NMÍ á sviði byggingaprófana og byggingarrannsókna, efnagreininga, sem og á sviði efna- og líftækni, er mikilvægur þáttur í nýsköpunarumhverfinu og því nauðsynlegt að gera ráð fyrir að slík starfsemi haldi áfram. Þar er til staðar umfangsmikill búnaður og færni sem ólíklegt er að einkaaðilar byggi upp á næstunni.“

Þá segir einnig í umsögn Rannís: „Heiti á frumvarpsins er nokkuð villandi, þar sem það gerir ekki grein fyrir nema litlum hluta opinbers stuðnings við nýsköpun.“ Ég vil leyfa mér að bæta við að hugtakinu nýsköpun er ekki gefið nokkurt inntak í frumvarpinu. Þar er enga greiningu að finna um hvernig þessum þætti verður betur skipað með samþykkt frumvarpsins.

Herra forseti. Þá vil ég loks vísa til umsagnar sem barst frá fulltrúum starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar en þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) niður, færa hluta verkefna til annarra opinberra aðila og einkavæða önnur. Afleiðingar þessara breytinga eru fjórþættar: Þjónusta við landsbyggðina versnar, stuðningur við nýsköpun versnar án þess að kostnaður lækki, aukin yfirbygging og verri meðhöndlun á opinberu fé, sú starfsemi sem er færð í einkaréttarlegt rekstrarform hentar betur að hafa í opinberum rekstri.“

Herra forseti. Það verður ekki sagt að ríkisstjórnin skili góðu verki í opinberum stuðningi við nýsköpun, a.m.k. ef marka má þetta frumvarp. Í landinu er mikil þekking fyrir hendi sem ekki er nýtt. Það er reyndar mikill samhugur sem glöggt má finna meðal þingmanna og áhugi meðal þeirra á nýsköpun sem er málefni sem reis hátt í aðdraganda alþingiskosninganna 2017 og setti svip á kosningabaráttuna. Samstaða þingmanna sést á starfi hv. atvinnuveganefndar sem lagði sig fram um að berja í brestina sem eru í þessu frumvarpi. En ríkisstjórnin missti af gullnu tækifæri til að koma fram með mál sem breið samstaða gæti tekist um á Alþingi. Þess í stað erum við hér með mál sem fær lítinn sem engan stuðning frá stjórnarandstöðu og þingmenn stjórnarflokkanna þriggja sýnast styðja með hangandi hendi, enda hafa þeir ekki látið sjá sig hér við 2. umr. ef undan er skilin framsaga hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem talaði fyrir áliti meiri hluta nefndarinnar.

Herra forseti. Það er ekki laust við að maður sé mjög hugsi yfir því að þetta frumvarp, svo vanbúið og vanhugsað sem það sýnist vera, skuli hafa verið lagt fram.