151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:53]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við þetta má kannski bæta að forsenda fyrir því að fjármagn fáist úr einkageiranum er náttúrlega að fjármagn sé til staðar úr opinberum sjóðum. Það er alger forsenda. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni umsögn sem 2. minni hluti nefnir í sínu nefndaráliti og er líka nefnd í nefndaráliti frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar sem hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Helgi Hrafn Gunnlaugsson skrifa undir. Það er nokkuð mikið talað um umsögn Kristjáns Leóssonar. Meðal þess sem kemur fram í hans umsögn, sem ég hjó eftir, er að Ísland hafi verið í 13. sæti á lista Global Innovation Index á árunum 2015–2017, sem er svona þokkalegt, kannski ekkert sérstakt, en á árinu 2018–2020 hafi það verið í 20.–23. sæti. Þetta er á sama tímabili og árlegur hagvöxtur er 2–7%. Mér finnst þetta vera áhyggjuefni. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það geti hugsast að Ísland muni e.t.v., ef svo fer fram sem horfir og þetta mál verður að veruleika, hrapa enn neðar á þessum lista.