151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun. Í ljósi þess að umræða um þetta mál hefur mestan part verið í neikvæðara lagi þá er kannski rétt að byrja á því að taka fram, sem ég held að við séum öll sammála um sem höfum tjáð okkur í þessum sal, að nýsköpunarumhverfið á Íslandi er langt í frá fullkomið, óbreytt staða er engan veginn hið æskilega ástand. Umhverfi nýsköpunar á Íslandi þarf að styrkja, opinberum stuðningi við nýsköpun þarf að breyta en sú aðferð sem ríkisstjórnin hefur valið er eins öfugsnúin og hugsast getur. Það hefði nefnilega verið mjög lítið mál að safna saman hugmyndum, ræða við starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar, þá sem nota þjónustu Nýsköpunarmiðstöðvar, starfsfólk Rannís og tengdra stofnana, sprotafyrirtækja, fólk innan háskólasamfélagsins og aðila vinnumarkaðarins. Þetta er nefnilega allt fólk sem vinnur við að fá hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Þetta er fólk sem vinnur við það að sjá hvernig er hægt að gera hlutina betur. Þetta fólk er allt sammála okkur um að nýsköpunarumhverfið sé ekki fullkomið. Í staðinn er farið af stað í það sem mætti reyndar kalla nýsköpun í opinberum rekstri vegna þess að þetta frumvarp og allt þetta ferli verður hægt að nýta í framtíðinni sem hráefni og hryggjarstykki í námskeiðum um breytingastjórnun, um það hvernig eigi ekki að gera hlutina.

Fyrir utan það að þessi leið nær því ekki fram að styrkja nýsköpunarumhverfið á Íslandi, þrátt fyrir að það eigi að vera markmiðið, þá lýsir allt ferlið ólíðandi viðhorfi til starfsfólks opinberrar stofnunar, sem mestallt síðasta ár stóð frammi fyrir fullkominni óvissu um framtíð sína. Það eina sem það vissi fyrstu vikurnar var að ráðherra ætlaði að leggja stofnunina niður, og gera síðan eitthvað. Það er óþolandi óöryggi fyrir það fólk sem treystir á þjónustu nýsköpunarmiðstöðvar, frumkvöðlana sem í orði kveðnu á að styðja betur með þessu frumvarpi. Það fólk bjó í staðinn við það að Nýsköpunarmiðstöð gat sífellt verr sinnt hlutverki sínu vegna þess að fólk hætti að vinna þar við þessar ólíðandi aðstæður.

Svona gerist þegar stjórnvöld horfa ekki á málaflokka eða verkefni heldur sjá bara stofnanir og ákveða að leggja þær niður, eða í þessu tilviki að einkavæða Nýsköpunarmiðstöð yfir í Tæknisetur Íslands ehf. og fleygja verkefnum sem út af standa um hvippinn og hvappinn. Ef stjórnvöld hefðu hins vegar, í staðinn fyrir að vera með þessa rörsýn á það að leggja niður stofnun, sest niður með öllu því fólki sem vill nýsköpunarumhverfinu vel, þá værum við í allt öðrum sporum í dag. Þá hefðum við á síðasta ári getað keyrt í gegn breytingar til góðs á nýsköpunarumhverfinu sem hefðu þar að auki verið hluti af þeim mótor sem við þurfum í viðspyrnu næstu ára.

Ríkisstjórnin hefur svo sem ítrekað lýst því yfir að nýsköpun og þekking og rannsóknir og þróun eigi að leggja efnahagsviðspyrnu Íslands í kjölfar Covid-19 lið. Þetta frumvarp laskar hins vegar getu geirans til þess, þetta laskar getu nýsköpunargeirans til að standa undir þeirri áskorun að reisa Ísland við eftir kórónuveirufaraldurinn, ekki bara frumvarpið sjálft heldur allt ferlið áður en það leit dagsins ljós, allt frá tilkynningu ráðherrans. Þá vaknar spurningin: Ætli sé hægt að mæla, ætli sé hægt að reikna út, ætli sé hægt að setja verðmiða á það hversu mikið þessi ákvörðun ráðherra kostaði samfélagið? Minni þróttur nýsköpunargeirans, minna afl frumkvöðla á síðasta ári, sem getur hafa leitt af öllu þessu ferli, leiðir einfaldlega til minni nýsköpunar og minni efnahagslegra umsvifa í samfélaginu.

Auk þess eru dýru verði keyptar þær afleiðingar sem hafa orðið gagnvart starfseminni eins og hún átti að vera á síðasta ári. Fólk hefur flosnað upp úr starfsstöðvum Nýsköpunarmiðstöðvar úti um landið. Samt á að vera eitt af markmiðum þessa máls að styrkja nýsköpun á landsbyggðinni. Hvað með frumkvöðlana á frumstigi, fólkið sem er að stíga fyrstu skrefin, fólk sem fékk t.d. hugmynd eftir að hafa misst vinnu í kjölfar Covid, langaði að hrinda henni í framkvæmd og bankaði upp á hjá Nýsköpunarmiðstöð til að fá þar þann stuðning sem frumkvöðlar geta fengið á frumstigi hugmyndavinnunnar? Hvað hefur gerst þar? Starfsmönnum hefur fækkað úr tuttugu í tvo. Einhvers staðar liggur verðmiði á þessari ákvörðun en óvíst hvort við munum nokkurn tímann geta reiknað það út.

Það sem mann fer að renna í grun eftir síðustu mánuði, þar sem nýsköpun hefur mjög oft borið á góma í aðgerðum stjórnvalda en kannski sjaldnar með einhverju inntaki, er að nýsköpun sé að verða stikkorð hjá stjórnvöldum frekar en raunveruleg innihaldsrík stefna sem hefur áhrif á aðgerðir stjórnvalda. Það er auðveldast að benda á þetta frumvarp sem snýst í orði kveðnu um opinberan stuðning við nýsköpun en er í reynd að skræla opinbera stuðninginn utan af nýsköpunarumhverfinu.

Svo væri líka hægt að nefna hluti sem bera nafnið „nýsköpun“ eins og Nýsköpunarsjóð námsmanna sem nær ekki að standa undir því hlutverki sem honum er ætlað, sem birtist einna skýrast í því að þegar ákveðið var að veita meira fé í sjóðinn á síðasta ári til að hjálpa námsfólki á miðju Covid-sumri að ná endum saman og vinna vinnu sem tengdist því sem það væri að læra þá fylltust þau störf ekki vegna þess, að ég tel, í fyrsta lagi að sjóðurinn skammtar fólki of lág laun, 300.000 kr. á mánuði í tvo mánuði yfir sumar, sem er ekki einu sinni sumarhýran sem Menntasjóður námsmanna reiknar með að fólk fái, hvað þá það sem námsfólkið sjálft reiknar með. Þar að auki voru störfin oft og tíðum of þröngt skilgreind til að þau gætu laðað að sér fólk sem vantaði þó vinnu.

Svo langar mig að nefna dæmi um eitt opinbert apparat sem á að skipta um nafn bráðum og fá að heita Vísinda- og nýsköpunarráð, sem er að vissu leyti heppilegra nafn heldur en Vísinda- og tækniráð sem það hefur heitið til þessa, í ljósi þess að það er oft of mikil áhersla á tæknigreinar, hinar svokölluðu STEM-greinar, þegar kemur að stuðningi við frumkvöðlastarf og nýsköpun. En það sem á að gera um leið og nafninu er breytt í Vísinda- og nýsköpunarráð er að forsætisráðherra leggur til að ráðinu, sem er millistykki á milli stjórnvalda og stjórnenda í háskóla- og vísindaumhverfinu og atvinnulífinu, verði breytt í ráðgefandi nefnd en ráðið sjálft verði einungis skipað ráðherrum, fjórum í þeim frumvarpsdrögum sem síðast voru kynnt, sjö í fyrstu hugmyndum ráðherra.

Ég ætla að leyfa mér að segja, herra forseti, að fjögurra til sjö ráðherra hópur er ekki jafn frjór jarðvegur fyrir nýsköpun og fjölbreyttur hópur fólks víðs vegar að úr samfélaginu með reynslu úr atvinnulífi, vísindum og menntakerfinu. Þarna er verið að færast fjær raunverulegri nýsköpun á sama tíma og nafninu er breytt í nýsköpunarráð. En það er einmitt hlutverkið sem millistykki, sem okkur hefur orðið tíðrætt um, sem ég held að við myndum sakna mest úr núverandi umhverfi miðað við það sem ríkisstjórnin leggur hér til. Samtal á milli menntakerfisins, ríkis og sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðar, fyrirtækja, félagasamtaka, allra þeirra aðila sem geta mögulega komið með hugmyndir að borðinu getur ekki átt sér stað á hvaða vettvangi sem er. Það að búa til vettvang fyrir það samtal er mögulega eitt mikilvægasta framlag hins opinbera við nýsköpun. Það að búa til vettvang þar sem hallar ekki of mikið á eina hliðina frekar en aðra, sem er ekki of mikið á forsendum atvinnulífsins, vanrækir ekki atvinnulífið á forsendum fræðasamfélagsins, nær einhverjum jafnvægispunkti á milli allra þessara aðila, er það sem heilbrigt nýsköpunarumhverfi þarf helst frá ríkinu.

Þetta er líka vettvangur sem ríkið þarf að standa á bak við þar sem það er mjög ósennilegt að slíkur vettvangur muni nokkurn tímann ná flugi á einhverjum viðskiptaforsendum. Þess vegna hlýtur að vekja furðu að ríkisstjórnin leggi til að færa það hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar yfir í einkahlutafélagið Tæknisetur Íslands. Þar óttast maður að stjórnvöld fari að þrengja fókusinn og að samtalið verði efnislega of þröngt. Heitið Tæknisetur gefur til kynna að þar verði kannski of mikil áhersla á raunvísindi og tæknigreinar á meðan sum af þeim mest krassandi nýsköpunarverkefnum sem í gangi eru um þessar mundir brúa einmitt bilið á milli hug- og félags- og raunvísinda og listgreina og allra skapandi greina, eru hrærigrautur allra fræðigreina.

Efnislega er Tæknisetur væntanlega of þröngt en með því að færa þetta yfir í einkahlutafélagsformið er líka hætt við að forsendur atvinnulífsins verði í forgrunni en ekki breiðari skírskotunin vegna þess að hún stenst kannski ekki viðskiptaforsendurnar en er engu að síður nauðsynleg fyrir þekkingarsköpun. Það þekkjum við líka úr umræðunni um stuðning við grunnrannsóknir þar sem stjórnvöld eyða allt of oft meira púðri í svokallaðar hagnýtar rannsóknir, en grunnrannsóknir sem ekki komast í gegnum nálarauga markaðarins eru látnar sitja á hakanum. Samt eru það þessar grunnrannsóknir sem mynda grundvöllinn undir allri þekkingarsköpuninni.

Eitt af mínum uppáhaldsdæmum er nefnt um þetta í umsögn Space Iceland við frumvarpið. Það er Carbfix-verkefnið hjá Orkuveitunni. Það byggist á grunnrannsóknum sem Tækniþróunarsjóður styrkti að mig minnir, rannsóknum á veðrun basalts sem engan hafði órað fyrir að myndi geta af sér það krúnudjásn Orkuveitunnar sem Carbfix-verkefnið er að verða. Carbfix-verkefnið er líka svo skemmtilegt dæmi um annað hlutverk hins opinbera, sem er að setja samfélaginu skýran ramma og stundum að búa til nauðsynlegar hindranir eða nauðsynlegar áskoranir sem kalla síðan aftur á nýjar lausnir. Carbfix stendur nefnilega á grunni Sulfix-verkefnis Orkuveitunnar sem fór af stað sem leið Orkuveitunnar til að ná brennisteinsvetni úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar og farga því einhvern veginn. Vegna hvers? Vegna þess að stjórnvöld settu ströng viðmið um hámark styrks brennisteinsvetnis í nágrenni jarðhitavirkjana, ekki að gamni sínu heldur vegna þess að það er eitruð lofttegund sem var farin að angra íbúa í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins þegar vindátt stóð þannig. Það var ekki auðvelt fyrir Orkuveituna að bregðast við því en hún gerði það. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að eftir á að hyggja sjái Orkuveitan ekki eftir því fé eða því erfiði sem kostaði að ná Sulfix-verkefninu af stað í ljósi þess sem það síðan gat af sér, Carbfix-verkefnis sem er nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála sem líklegt er að verði hægt að flytja út, jafnvel í stórum stíl.

Herra forseti. Það má margt um þetta frumvarp segja en ég held að kjarninn sé það sem við erum mörg búin að tönnlast á hér í dag og síðustu daga. Það er til svo ofboðslega margs að vinna að efla opinberan stuðning við nýsköpun. Það er leiðin fram á við, ekki bara í gegnum Covid-kreppuna heldur líka til að takast á við aðrar áskoranir framtíðarinnar eins og loftslagsvána. Þetta frumvarp er hins vegar engan veginn leiðin til þess.