151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja á endanum. Ég tel alveg eðlilegt að þetta mál fái nánari umfjöllun í atvinnuveganefnd enda greiddi ég ekki atkvæði með því að taka það út úr nefnd og útskýrði mál mitt þannig að ég teldi það einfaldlega ekki tilbúið og reyndar tel ég það ekki geta orðið tilbúið vegna þess að ég tel að inntakið sé rangt. Aftur á móti tel ég mögulegt að hægt sé að bæta það og þá myndi ég styðja það. Hvað varðar drifkraftinn á bak við það að meiri hluti nefndarinnar taki þetta út og haldi áfram með málið þá ætla ég að biðja um nokkra vorkunn fyrir meiri hlutann vegna þess að ráðherra hefur af sinni stöku óráðdeild í málinu hafið verkið áður en lögin eru sett. Að því leyti er skaðinn núna þegar hafinn, óvissan er til staðar. Það er byrjað að láta af hálfu framkvæmdarvaldsins eins og þessi lög hafi þegar verið sett. Meiri hlutinn er settur í þá stöðu að reyna annaðhvort að laga þetta mál hvað best hann getur og reyna að gera sem best úr því eða — hvað? Maður veltir því fyrir sér. Klára málið ekki og láta ríkisstjórnina klúðra þessu svo glæsilega?

Virðulegi forseti. Ég öfunda ekki meiri hlutann af því að vera í þessari stöðu. Sjálfur myndi ég bara vilja að byrjað væri á þessu máli alveg frá grunni. Sem annan kost myndi ég velja að það yrði unnið betur og hygg ég þó að það yrði mjög erfitt að vinna það þannig að það yrði nógu gott úr því sem komið er. Aftur á móti vil ég líka bara hafa það skýrt: Ég tel þetta klúður vera ráðherrans sem lagði fram málið og gerði ráð fyrir því að það yrði samþykkt hér bara með handaklappi eftir að hafa þegar byrjað að ráðast í þær breytingar sem lagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Það þykir mér óábyrgt með eindæmum og sér í lagi í þeim aðstæðum sem við erum í núna þar sem við þurfum að hafa sterkt og fyrirsjáanlegt nýsköpunarumhverfi fyrir þá aðila sem nú eru atvinnulausir en eru með hugmyndir sem væri hægt að nýta ef þeir þekktu tækifærin (Forseti hringir.) og fengju þau tækifæri í kerfi sem væri hugsað til enda frá upphafi.