151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:35]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Þetta var efnismikil ræða en meðal þess sem vikið var að þar voru stafrænar smiðjur. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins úr nefndaráliti 1. minni hluta hv. atvinnuveganefndar, þar sem segir:

„Með frumvarpi ráðherra er vissulega lagt til aukið framlag til rekstrar stafrænna smiðja í landinu en ekki er að sjá af frumvarpinu eða gögnum málsins að ráðuneytið hafi lokið þeirri vinnu sem Alþingi fól ráðherra að inna af hendi á sínum tíma. Tækifæri hefði verið til þess að leggja fram slíka áætlun í frumvarpinu og um leið móta umgjörð um starfsemi stafrænna smiðja og tilgang þeirra en það er ekki gert. Þótt breytingartillögur meiri hlutans séu til bóta þá vantar enn þó nokkuð upp á að mati 1. minni hluta til að ljóst sé að starfsemi stafrænna smiðja sé tryggð til framtíðar og að mótuð sé heildarsýn um rekstur þeirra.“

Nú veit ég að hv. þingmaður er ákaflega vel að sér í opinberum fjármálum og fjárlögum og fjármálaáætlun og mig langar til að heyra ofan í hann varðandi þessar áhyggjur, hvort ástæða sé til að hafa hreinlega áhyggjur af þessum mikilvæga rekstri.