151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er kannski fyrst að segja með læsi að ég er ekki viss um að átakið hafi endilega mistekist. Það hefur eflaust orðið einhverjum að gagni þrátt fyrir þá stöðu sem við erum í. Það eru auðvitað margar aðferðir við að kenna börnum að lesa og það er kannski eitt af því sem við þurfum að horfa til. Gjarnan eru tilteknar aðferðir notaðar innan skóla, hljóðaaðferð eða hvað það nú er, og ég er ekkert viss um að við eigum að nýta einhverja eina leið. Við erum að tala hér um að mæta börnum og nemendum þar sem hver einstaklingur er og þá held ég að við eigum fyrst og fremst að horfa til þess að nota ólíkar aðferðir til þess að kenna börnum að lesa. Og svo, eins og ég sagði áðan, held ég að það sé gríðarlega mikilvægt, þegar börn eru farin að stauta sig af stað, að hjálpa þeim að skilja samhengi orðanna með því að ræða við þau um það sem þau voru að lesa. Það hefur mér alla vega fundist bera mestan árangur og ég hef nýtt það með þeim sem ég hef kennt að lesa, bæði eigin börnum og barnabarni. Mér hefur einmitt fundist áhugavert að nemendur eða börnin okkar eru auðvitað í allt öðrum veruleika en við vorum þannig að við þurfum kannski að reyna að finna ólíkar leiðir. Ég þekki auðvitað líka lesblind börn sem fögnuðu tölvunni mjög þar sem þau gátu t.d. lagt litað spjald yfir og lesið betur og allt í einu sáu þau stafi sem höfðu runnið saman áður o.s.frv. Við þurfum að nýta öll tól og tæki til þess að hjálpa börnum að verða læs.