151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:27]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Hér tæpir hann á ákaflega mikilvægu máli og algeru lykilmáli varðandi upplifun barna af bókum og því að bækur séu eðlilegur hluti af daglegu lífi barna á þeim vinnustöðum sem skólarnir eru og jafnframt á heimilum barna. Það er því miður svo að bókasöfn hafa um langt árabil verið fjársvelt. Í skólabókasöfnum og bókasöfnum yfirleitt hefur ekki verið settur nægilega mikill peningur í að kaupa það sem hefur komið út af spennandi bókum. Ég veit að bókaforlögin, sem eru mörg og kraftmikil í þessu landi, hafa mörg hver einbeitt sér að því að gefa út spennandi bækur fyrir krakka, fyrir öll kyn, bækur sem höfða til barna og börn eiga að geta notið á sínum eigin forsendum. En þá er ekki nógu gott að börnin fái á einhvern hátt þau skilaboð að bækur séu eitthvað rykfallið úti í horni sem enginn kæri sig um að nota. Það þarf að vera nýmeti og það þurfa að vera sífellt nýjar og nýjar bækur á boðstólum. (Forseti hringir.) Ég held að bókaforlögin eigi að geta séð til (Forseti hringir.) að svo megi verða.