151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við hv. þingmaður álíka gamlir í þessu starfi, ekki með mjög langa þingreynslu miðað við sumt fólk. Við búum hins vegar af þeirri reynslu að hafa veturinn 2018–2019 samþykkt þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Þar stóð eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Starfsemi skólabókasafna og almenningsbókasafna verði efld og þjónusta við nemendur og almenning bætt. Áhersla verði lögð á aðgang að nýju og fjölbreyttu efni á íslensku.“

Við erum í rauninni að segja það sama í þeirri tillögu sem liggur hér fyrir tveimur árum síðar. Ég velti fyrir mér: Hvað hefur gerst í millitíðinni? Forlögin eru framleiðendur efnisins sem á að fylla bókasöfnin. Bókasöfnin þurfa pening til að geta keypt bækurnar. Rithöfundar þurfa stuðning til að geta samið þær eða þýtt þær og þar vantar aldeilis að spýta í lófana.

Ég hef áhyggjur af því að við séum að spóla í sama farinu í þessum málaflokki. Við erum alltaf að talað um læsi og að við þurfum að efla bókasöfnin og svo bara gerist ekki neitt ár eftir ár. Hið sama mætti svo sem segja um ýmsa aðra málaflokka sem við erum að ræða varðandi menntun. Ég held að varla hafi verið minnst á menntamál í þessum sal síðasta áratug án þess að bent sé á þörfina á að efla jafnréttiskennslu á öllum skólastigum sem er samt grunnþáttur menntunar í aðalnámskrá allra skólastiganna og hefur verið í áratugi. (Forseti hringir.) Einhvern veginn er aldrei nóg gert. (Forseti hringir.) Spurningin væri kannski helst hvort eitthvað hafi komið fram hjá nefndinni um að stefnu um eflingu íslenskunnar hafi verið framfylgt (Forseti hringir.) varðandi skólabókasöfnin.