151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:54]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta ræðu. Ég held að það fari vel á því að við tveir hv. karlþingmenn tölum aðeins um drengina og þá umræðu sem er brýn og ágæt. Það er vissulega svo að vandi drengja innan skólakerfisins er ærinn og sérstakur. Vandi stúlkna er líka ærinn og sérstakur og kemur fram í kvíða en vandi drengja kemur fram í erfiðleikum þeirra við að ná tökum á lestri og líka að þeir kvarta oft yfir því að þeir finni sig ekki innan skólakerfisins og talað er um að gerðar séu óraunhæfar kröfur til þeirra sem þeir eigi erfitt með að standa undir. Maður heyrir oft talað um að þetta sé vegna þess að það sé skortur á karlfyrirmyndum innan skólans, það sé ekki nógu mikið af karlkennurum sem þarna eru og gætu verið þeim fyrirmyndir. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hans skoðun á þessu, hvort það sé eitthvað til í því að skólinn sé of kvenlægur. Þó að maður eigi að fara varlega í það að tala út frá eigin brjósti um þessi málefni get ég þó sagt það hér að ég var með nokkuð marga karlkennara þegar ég var sjálfur í barnaskóla og gagnfræðaskóla og kvenkennara og ég get sagt að þeim karlkennurum ólöstuðum, sem allir höfðu eitthvað sér til ágætis, að þeir voru ekki alls kostar heppilegar fyrirmyndir í (Forseti hringir.) lífinu að öllu leyti. En konurnar reyndust mér þeim mun betur. (Forseti hringir.) Ég vil aðeins fá mat hv. þingmanns á þessari umræðu.