151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar og fyrir að gefa mér tækifæri til að ræða þetta mál því að ég hygg að í þessu séum við ósammála eins og um sumt annað. Ég held nefnilega að þessi menntastefna snúist ekki — ég ítreka: ekki, um að við þurfum aukið fé inn í menntakerfi okkar. Ég held einmitt að það sem við eigum að gera í grunnkerfum okkar sé að straumlínulaga þau. Við eigum að forgangsraða þar og ná þannig árangri. Þar hygg ég reyndar að sé grunnmunur á nálgun okkar í pólitík. Ég held að þetta snúist ekki um meiri peninga heldur um það hvernig við verjum peningunum sem fara í kerfin. Við höfum ótal margar mælingar um að við setjum mikið af fjármunum inn grunnskólakerfið, ég ætla að taka það sérstaklega fyrir. En því miður hefur árangurinn í alþjóðlegum mælingum ekki verið í neinu samræmi við það. Þá er ég að vísa til PISA-könnunar og hvað við setjum mikið af vergri landsframleiðslu í grunnskólakerfið. Verið hefur gríðarleg auking á fjármunum til háskólanna og framhaldsskólanna að einhverju leyti líka. En ég held að nálgun okkar í þessu, og reyndar í svo mörgum grunninnviðum okkar, snúi númer eitt, tvö og þrjú að því hvernig fjármunum okkar er varið. Það þýði ekki að við séum alltaf að kalla eftir auknum fjármunum heldur snýst þetta um skipulag okkar og forgangsröðun.