151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér menntastefnu til tíu ára, menntastefnu 2020–2030. Ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr inngangi greinargerðar með þessari menntastefnu en þar segir, með leyfi forseta:

„Menntun er lykill að tækifærum framtíðar og eitt helsta hreyfiafl samfélaga og velsældar mannkyns. Á tímum fádæma umskipta, óvissu og örra tæknibyltinga verða þjóðir heims að búa sig undir aukinn breytileika og sífellt flóknari áskoranir. Framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar velta á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Velgengni byggir á vel menntuðum einstaklingum með skapandi og gagnrýna hugsun, félagsfærni og góð tök á íslensku og erlendum tungumálum til að takast á við hnattrænar áskoranir.“

Þessi texti lofar mjög góðu. Þá veltir maður fyrir sér: Hér er tillaga til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030 þar sem Alþingi ályktar að unnið skuli að því að efla menntun námsmanna til ársins 2030 í samræmi við meðfylgjandi menntastefnu. Markmið og framtíðarsýn og menntastefnan sjálf rúmast fyrir á rúmri blaðsíðu. Svo koma þessi fínu orð hér en svo verður þetta að mínu mati svolítið loðið og mér líður pínulítið eins og ég sé að lesa einhvern kosningabækling. Það er vissulega sagt hér á lokametrunum að innleiðingin sé lykillinn að því að ná fram settum markmiðum. En mér finnst mjög lítið vera fjallað í þessari menntastefnu um hvernig á að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Þeim markmiðum að koma á legg vel menntuðum einstaklingum með skapandi og gagnrýna hugsun með mikla félagsfærni og góð tök á íslensku og erlendum tungumálum til þess að takast á við hnattrænar áskoranir. Þetta hlýtur að vera meginmarkmið okkar, að koma okkar fólki, börnum okkar og ungmennum út í lífið sem vel menntuðum einstaklingum af því að menntun er lykillinn. Það er mjög lítið talað um hvernig við ætlum að ná þessum árangri. Ég sakna þess svolítið að sjá ekki hvernig og hvað við ætlum að gera til að ná þessu fram. Nýsköpun í námi, fjölbreytni í námi í þessum ótrúlega breytta heimi. Við finnum mjög lítið fyrir því inni í skólastofum landsins, því miður. Maður veltir fyrir sér hvort við ættum frekar að vera horfa á framtíðarfræði við kennslu með nokkrum grunnfögum sem allir verða að ná góðum tökum á eins og íslensku og erlendum tungumálum, eins og að lesa og skrifa, reikna, en að önnur fög verði mun fjölbreyttari. Fjölbreytni í listgreinum, iðngreinum, nýsköpun, tæknigreinum alls kyns framtíðargreinum, að val nemenda verði miklu meira, að við hættum að hugsa inni í þessum boxum af því að einhvers staðar stöndum við okkur ekki nógu vel. Ég er ekki að segja að okkur hafi mistekist af því að okkur vegnar ágætlega í samfélagi þjóðanna. En þegar við berum árangur íslenskra barna og ungmenna saman við árangur barna og ungmenna landa sem við viljum bera okkur saman við þá gengur okkur ekkert sérstaklega vel.

Mig langar að byrja á því að ræða um fyrsta skólastigið. Leikskólinn er grunnurinn og mætti nýta betur en nú er gert. Það mætti blanda betur saman leik og námi og er það reynsla margra sem fara úr leikskóla yfir í grunnskóla að finnast eins og utanumhald og fjölbreytni við að leggja inn ýmiss konar fróðleik sé jafnvel meiri á fyrsta skólastigi, í leikskólanum og að þessi brú úr leikskóla yfir í grunnskóla megi vera meira aflíðandi, það verði ekki þessar ofboðslega ólíku stofnanir sem mæta barninu. Þetta sést auðvitað á þeim fjölda starfsmanna sem starfa með hópi barna sem á einum eftirmiðdegi breytist úr því að vera þrír að annast hóp yfir í að vera einn að annast hóp og allir eigi að sitja kyrrir við borðið sitt.

Mig langar líka aðeins að ræða um styttingu vinnuvikunnar. Við erum svolítið upptekin af styttingu vinnuvikunnar. Ég er viss um að við, íslensk þjóð sem er annáluð fyrir dugnað, sem lærum frá blautu barnsbeini að vinnan göfgi manninn og við verðum öll betri af því að vinna og vinna og leggja okkur meira fram og vera mikið í vinnunni og helst koma sjaldan heim en undanfarin ár höfum við allt í einu áttað okkur á því að það getur líka verið gæfuríkt að vera bara svolítið heima hjá sér og hitta fjölskylduna sína og rækta hana og rækta eigið líf. Þá velti ég fyrir mér hvort við ættum að taka næsta skref í styttingu vinnuvikunnar og horfa á styttingu vinnuviku barna, leikskólabarna, grunnskólabarna og framhaldsskóla ungmenna. Hvort það geti verið að þessi þróun í skólakerfinu að vera með þrískiptan skóla, þrískiptan grunnskóla og seinna tvískiptan grunnskóla þar sem helmingur námshópsins var í skólanum fyrir hádegi og hinn helmingurinn eftir hádegi yfir í það að börnin eru í skólanum frá 8.30 til 14.30 eða 15 og fara þá í frístund, að það sé kannski eitthvað sem við ættum að endurskoða. Getur verið að við ættum að leyfa börnunum okkar að leika sér meira og vinna minna, auka leikinn og auka þannig félagsfærni barnanna?

Hv. þm. Willum Þór Þórsson talaði hér fyrr í kvöld um læsi og hann talaði um heilsulæsi, mikilvægi þess að nemendur séu læsir á eigin heilsu. Ég er honum innilega sammála. Það skiptir miklu máli að við áttum okkur á mikilvægi góðrar heilsu og hvernig við getum eflt heilsu okkar og bætt hana. En mig langar líka að ræða um geðheilbrigði og geðheilsu og líðan okkar í skólakerfinu. Í menntastefnu segir, með leyfi forseta, um geðrækt sem er einhver stærsta áskorun samtímans:

„Gæta skal að tilfinningalegri og félagslegri heilsu nemenda og því að efla aðstæður í daglegu lífi sem stuðla að sem bestri líðan. Sóknarfæri til að efla geðheilsu eru einna mest í æsku og því áhersla á að hlúa að þeim verndandi þáttum sem vega þyngst hvað geðheilsu varðar á æskuárunum.“

Aftur velti ég fyrir mér innleiðingu á þessum orðum í menntastefnunni. Hvernig á að tryggja geðheilsu þjóðarinnar þegar við stöndum svona að henni í skólanum? Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar má lesa að að mati nefndarinnar þurfi að auka áherslu á þjónustu sálfræðinga sem og náms- og starfsráðgjafa og félagsfræðinga innan veggja skólanna en jafnframt á víðtækari fræðslu um geðheilbrigði, sérstaklega með hliðsjón af því að kvíði og andleg vanlíðan virðist hafa aukist meðal barna í menntakerfinu. Þá telur nefndin mikilvægt að tryggja ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa og mynda heildstæða skólaþjónustu sem grípur börn snemma á lífsleiðinni og veitir þeim þá þjónustu sem þau þurfa á að halda.

Hvernig á að ná þessu öllu saman? Hvaða aðgerðir sjá stjórnvöld fyrir sér? Ætla þau að leggja til að á menntavísindasviði, þar sem við kennum fólki að kenna, verði farið í sérstakt átak er varðar geðheilbrigði? Á að setja eitthvað inn í námskrá, á félagsþjónustan að koma inn í þetta? Hvað með stuðning við foreldra barna? Á heimasíðu Geðhjálpar er talað um að það verði að auka geðrækt í skólum og þar er talað um að ein besta fjárfesting hvers samfélags sé að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt sé að nýta þá verndandi þætti í daglegu lífi barnanna. Mikilvægt sé að geðrækt verði kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara til að miðla þessari fræðslu.

Af hverju er ég að velta þessu mikið fyrir mér? Jú, vegna þess að það hefur verið talað heilmikið um líðan barna í skólakerfinu. Það er umtalsverð aukning í notkun kvíðalyfja hjá stúlkum í skólum landsins. Umtalsverð aukning. Tryggvi Hjaltason, frumkvöðull og eldhugi, skilaði umsögn um menntastefnu til Alþingis og er þar með ansi fróðlegan pakka sem hann hefur líka verið að kynna í fjölmiðlum. Hann hugsar mikið um drengi í skólakerfinu og ábendingar hans ríma mjög vel við þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar sem liggur hér fyrir Alþingi sem er fjögurra ára aðgerðaáætlun, tímasett og fjármögnuð, þar sem skorað er á hæstv. menntamálaráðherra að auka veg drengja í skólakerfinu. Af hverju? Jú, vegna þess að 35% drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og er þetta tvöfalt hærra hlutfall en hjá stúlkum og töluvert hærra hlutfall en hjá drengjum í öðrum ríkjum sem við berum okkur saman við. Og þetta er markvisst að versna. Þetta eru 10% fleiri drengir núna en voru árið 2009. Í lesskilningi er hærra hlutfall drengja í lægri hæfniþrepum á Íslandi samanborið við OECD-löndin og er þetta sérstakt íslenskt vandamál.

En það eru ekki bara lesturinn, herra forseti, sem er vandamál. Vandamálið á Íslandi. Það virðist vera sem geta og líðan nemenda í skólum á Íslandi sé verri en í öðrum ríkjum OECD. Íslensk börn mælast í 34. af 38. sæti meðal þróaðra ríkja þegar kemur að mennta- og félagslegri getu. Aftur velti ég fyrir mér styttingu vinnuvikunnar hjá börnum og ungmennum. Þegar við stöndum illa félagslega getur verið að þarna birtist það. Það birtist þannig að þau séu í 34. af 38 sætum meðal þróaðra ríkja þegar kemur að menntagetu og félagslegri getu.

Hvernig líður börnunum í skólunum? 40% 11 ára íslenskra drengja líður mjög vel í skólanum. 46% íslenskra stúlkna líður vel í skólanum á sama aldri. 76% 11 ára íslenskra drengja upplifir góðan stuðning frá kennara. 84% íslenskra stúlkna upplifa góðan stuðning frá kennara og bendir WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, á að þetta sé umfangsmikill munur. Þetta er einn hæsti munur sem sjá má í skýrslunni milli kynja. Drengir fá lægri einkunn á samræmdum prófum og eykst munurinn milli kynjanna eftir því sem þau eru lengur í skólanum. Það kemur einnig fram í rannsóknum að kennarar hrósa drengjum síður en stúlkum en það kemur einnig fram í rannsóknum að drengir fá miklu meiri athygli í skólanum en stúlkur. Það er miklu oftar verið að sýna þeim athygli. En það er líka hægt að greina það í rannsóknum að sú athygli sem drengirnir fá í skólakerfinu er miklu oftar neikvæð en jákvæð. Þeir fá miklu frekar neikvæð skilaboð í skólanum. Af hverju er þetta? Getur verið að vanlíðan beggja kynja í skólanum komi til af þessu t.d., að vanlíðan stúlkna birtist vegna þess að þær fái ekki athygli kennara í skólanum, vanlíðan drengja vegna þess að þeir fá meira af neikvæðri athygli, a.m.k. er það þannig að þeir fá lægri einkunnir. Rúmlega þriðjungur getur ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla, sjálfsvígstíðni meðal 10–19 ára gamalla drengja er hvergi meiri á Norðurlöndum en á Íslandi og íslenskir 11 ára drengir eru Norðurlandameistarar í klámneyslu. Þriðjungur drengja dettur svo út úr framhaldsskóla. Á Íslandi eru fleiri karlar án framhaldsskólamenntunar á aldrinum 25–34 ára en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. 24% karla á þessum aldri hafa ekki lokið námi eftir grunnskóla en hlutfallið er 15% fyrir konur. 24% karlar, 15% konur og munurinn er óvíða jafn mikill og á Íslandi, jafnréttisparadísinni Íslandi. Við erum heimsfræg fyrir að vera best í jafnréttismálum á sama tíma og þetta er staðan í íslensku skólakerfi. Af hverju er þessi þingsályktunartillaga ekki öll um þetta, að bæta hag og jafna bil milli kynjanna í skólakerfinu? Það að svona mikið misræmi sé milli kynja í skólakerfinu mun leiða til félagslegra vandamála síðar meir.

Markmið 4.5 í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna hljóðar svo: „Eigi síðar en árið 2030 hafi kynjamismunun í menntakerfinu verið afnumin.“ Í tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030 er ekki eitt orð um stöðu drengja í skólakerfinu þrátt fyrir allar þessar mælingar, allar þessar rannsóknir og alla þessa umræðu undanfarin ár, alla þá umræðu sem einhverjum í samfélaginu finnst alveg nóg um og eru orðin ofboðslega leið á að það sé alltaf verið að tala um hvað drengjum líður illa í skólakerfinu. En þegar þau sem eru að búa til stefnu Íslands í menntamálum víkja ekki einu orði að þessari mjög svo ójöfnu stöðu kynjanna tveggja í skólakerfinu þarf maður augljóslega að tala hærra og hærra og meira og samþykkja þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um aðgerðaáætlun til að bæta stöðu drengja í skólakerfinu.