151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. „Ég get ekki sagt að ég hafi verið barinn, en það er hægt að meiða með fleiru en barsmíðum.“ Þessu trúði eldri einstaklingur mér fyrir fyrir allmörgum árum og í kjölfarið hélt ég fyrirlestur um ofbeldi gegn öldruðum á námsstefnu Öldrunarfræðifélags Íslands árið 2003. Ofbeldi gegn öldruðum er vissulega dulið vandamál í íslensku samfélagi og hefur verið mjög lengi. Talað er um að það geti verið einhvers staðar á bilinu 2–10% eldra fólks sem lenda í slíkri slíkum hremmingum, misjafnt eftir því hvernig menn skilgreina það. Öldrunarfordómar eru sannarlega einn hluti ofbeldis gegn öldruðum og leiðast oft út í einelti, eins og þessi gamla einstaklingur sem ég nefndi hér í upphafi hafði lent í. Þetta hættir ekkert þótt fólk nái einhverjum tilteknum aldri. Ofbeldissamböndum lýkur ekki þó að aðilarnir samböndum verði 67 ára. Það er því gott að nú um stundir hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar vakið máls á þessu og Helga Hannesdóttir geðlæknir ritar grein um þetta efni í Fréttablaðið í dag. Oft eru þarna nákomnir einstaklingar þannig að þetta fer dult og menn bera ekki þennan harm sinn á torg. En þetta er samfélagsmein sem við verðum að horfast í augu við sem samfélag og við eigum að finna leiðir til þess að grípa til aðgerða og verja þessa einstaklinga.