151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Nú liggur fyrir sú ákvörðun breskra stjórnvalda að stækka kjarnorkuvopnabúr sín um 40% í tengslum við endurnýjun Trident-kjarnorkukafbáta sinna. Eftir aukninguna mun Bretland hafa yfir 260 kjarnaoddum að ráða. Það ætti að vera áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga af mörgum ástæðum, t.d. vegna þess að Bretland er það kjarnorkuveldi sem liggur næst okkur, heimahöfn þessara vopna verður í Faslane-stöðinni við Clyde-fjörð í Skotlandi, einnig vegna þess að með þessari aukningu fótumtroða Bretar NPT-sáttmálann um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, en hér er um augljóst brot á 6. gr. hans að ræða. Ákvörðunin mun því grafa undan NPT-sáttmálanum og draga úr líkum á því að samkomulag náist um að þróa hann frekar. Þetta er þeim mun mikilvægara í ljósi þess að Ísland hefur, eins og önnur NATO-ríki hingað til, haft þá afstöðu að ekki sé æskilegt að undirrita sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að banna kjarnorkuvopn heldur beri að vinna að slíku banni innan NPT-samningsins. Þetta gengur auðvitað ekki. Ég minni því hv. þingmenn á þingmál mitt og fleiri þingmanna um að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um að banna kjarnorkuvopn. Nóg er það víst sem heimurinn er að glíma við núna, svo sem heimsfaraldur og loftslagsvá, og nokkuð ljóst að hvorki kjarnorkustyrjaldir né kjarnorkustríð munu hjálpa okkur í þeirri baráttu heldur einmitt gera vandann enn stærri.