151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mig langar að gera að umtalsefni frumvarp hæstv. ráðherra Katrínar Jakobsdóttur um stjórnarskrá og breytingar á henni, sem er til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það hefur verið einstaklega áhugavert og ánægjulegt að fá að fjalla um þetta mál sem fulltrúi í þeirri nefnd. Það hefur verið ánægjulegt að sjá umsagnir þeirra sem sent hafa inn slíkar umsagnir og þeirra gesta sem komið hafa á fund okkar í nefndinni vegna þess að í fjölmörgum umsögnum er að finna hvatningu til Alþingis um að stíga nú loksins það skref að koma á breytingum á stjórnarskránni. Þar má sérstaklega nefna Félag heyrnarlausra sem sér það sem mannréttindi félagsmanna sinna að koma ákvæðum um íslenskt táknmál inn í stjórnarskrá. Það er á okkar ábyrgð að verða við því ákalli.

Það vakti sérstaklega athygli mína hvatning frá Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði. Fulltrúi þess hvatti á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingismenn til að festast ekki um of í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 heldur koma á umbótum á stjórnarskránni. Það er kannski rétt að taka það fram, forseti, að ég fékk sérstakt leyfi frá umræddum fulltrúa til að vitna í orð hans. Í máli hans kom fram að hann óttaðist að við festumst aftur í deilunum um þjóðaratkvæðagreiðsluna og drög stjórnlagaráðs og köstuðum á glæ því tækifæri að breyta stjórnarskránni til hins betra og festa loksins í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum. Mig langar að vitna í umsögn félagsins, forseti, í lok máls míns:

„Félagið lýsir yfir ánægju með að fram séu komnar tillögur að ákvæðum í stjórnarskrá landsins um auðlindir, náttúru og tungumál og telur mikilvægt að slík ákvæði verði samþykkt á þessu kjörtímabili.“