151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:28]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Fréttir bárust af því í morgun og síðustu daga að nokkur smit hefðu verið greind hérlendis. Það liggur fyrir í dag að þrjú þeirra smita hafa verið svokölluð utansóttkvíarsmit. Þá bregður svo við að boðað hefur verið til blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar í dag. Þingstörf eru sett í uppnám. Ég hygg að þingfundi verði frestað að loknum þessum dagskrárlið hér og umræður sem áttu að fara fram um fjármálaáætlun muni frestast. Fréttir berast af því að nú verði boðað til hertra aðgerða innan lands, þar fór þetta ársgamla loforð um eðlilegt líf innan lands enn og aftur, með miklum lokunum og fjöldatakmörkunum. Rótin að þessu eru sem sagt þrjú smit sem greinast utan sóttkvíar.

Ég vil nota þetta tækifæri og þennan vettvang til að rifja það aðeins upp hér að sóttvarnalög voru endurskoðuð í febrúar í þeim tilgangi að renna stoðum undir þær sóttvarnaaðgerðir sem þá hafði verið framfylgt löglausum að mestu leyti. En það var sem sagt gert. Í þeirri viðleitni að standa við skuldbindingar sem menn hafa gagnvart stjórnarskrá og mannréttindum almennt og lífsskoðunum langflestra Íslendinga var lögð sérstök áhersla á meðalhóf við allar sóttvarnaraðgerðir. Mér þykir skorta upp á það hér að þingið og þingmenn almennt láti sig þessi mál varða í ljósi nýrra sóttvarnalaga, með þeim breytingum sem þar urðu á.

Ég nefni sem dæmi glórulausa umræðu um bólusetningarvottorð í síðustu viku sem ekki tók nokkurt mið af þeirri breytingu sem varð á sóttvarnalögum sem kveður skýrt á um að ekki sé heimilt að stöðva för bólusettra um landamæri Íslands. (Forseti hringir.) Ég hvet þingheim til þess að hafa í huga löggjafarhlutverk sitt og gildandi lög í landinu þegar kemur að meðalhófi í sóttvarnaaðgerðum.