151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í dag eru liðnar þrjár vikur frá því að Alþingi samþykkti beiðni mína og 25 annarra þingmanna um skýrslu frá heilbrigðisráðherra varðandi mál sem lýtur að skimun fyrir leghálskrabbameini og rannsóknarþátt þess máls. Í því máli eru útistandandi margar veigamiklar spurningar sem brýnt er að fá fram svör við, svör þannig að forsendur málsins og röksemdir og vinnulag liggi fyrir, svör sem geta vonandi orðið til að byggja upp og endurheimta traust kvenna til kerfisins að nýju. Það bætist stöðugt í þetta mál, að manni finnst. Síðast í dag eru fréttir af því fluttar um að verkefnið hafi verið útboðsskylt, upplýsingar um það hafi legið fyrir án þess að farið hafi verið eftir þeim tilmælum og því regluverki sem gildir.

Ég er hingað komin upp til þess að minna á þessa skýrslubeiðni okkar þingmanna. Þar var farið fram á það og óskaði eftir því að samráð yrði haft við þingflokka um að finna óháðan aðila til að vinna skýrsluna og ég vil brýna heilbrigðisráðherra til að hefjast handa við þetta. Liðnar eru þrjár vikur en ráðherrann hefur samkvæmt gildandi reglum tíu vikur til að skila af sér þessari skýrslu. Margar stórar, mikilvægar og þýðingarmiklar spurningar eru þar útistandandi sem við þurfum að fá svör við og vont að vera að draga það að hefjast handa í þessu verkefni.