151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:06]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram er hér fyrst og fremst verið að bregðast við þeirri ákvörðun ráðherra að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð og koma á fót Tæknisetri Íslands. Í nefndaráliti meiri hlutans eru nokkrar nauðsynlegar breytingar lagðar til á frumvarpinu sem þingflokkur Samfylkingarinnar styður. Enn er staðan þó sú að tilefni lagasetningarinnar er óskýrt og greiningarvinna, sem leggja hefði átt fram til undirbúnings málsins, vanreifuð eða jafnvel ekki til staðar. Þá er tímarammi breytingaferlisins of stuttur og stofnunin lögð niður án þess að búið sé að móta þá ferla sem taka eiga við veigamiklum verkefnum stofnunarinnar. Eins liggja ekki fyrir rekstraráætlanir, og fleira mætti nefna.

Ég tek því undir beiðni hv. þm. Ólafs Ísleifssonar um að málið verði kallað inn á milli umræðna. Í ljósi alls þessa er það sannfæring þingflokks Samfylkingarinnar að ástæða hefði verið til að undirbúa málið betur enda hefur sjaldan verið jafn mikil þörf fyrir nýsköpun og stuðning við frumkvöðlastarf og nú er. Við munum því greiða atkvæði gegn málinu.