151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í menntastefnunni sem hér er verið að greiða atkvæði um eru mörg falleg orð og ágætismarkmið sem fólk sem lengi hefur unnið í menntakerfinu hefur allt saman séð áður. Þó að fjallað hafi verið um það mörgum sinnum og í áratugi að ná ákveðnum markmiðum, svo sem hvað varðar aukna starfsmenntun og margt fleira gott sem er í þessari stefnu, þá megum við ekki gefast upp og þess vegna verðum við að halda áfram veginn.

En það er ekki nóg að setja orð á blað. Ég vil nota tækifærið til að benda á að í fjármálaáætluninni sem búið er að samþykkja og stjórnarliðar hafa sagt að liggi undir á næsta kjörtímabili, næstu fimm árin, er ekki gert ráð fyrir fjármunum til að framkvæma þessa stefnu. Margt af því sem þar er mun kosta helling af peningum og ekki er gert ráð fyrir því í fimm ára áætluninni sem er í gildi heldur er þvert á móti dregið úr fjárframlögum þegar þau málasvið eru lögð saman sem fjalla um menntamál.