151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef í máli mínu hér í dag verið að vekja athygli á því að tekjur heimilanna eru mun stöðugri nú en var í síðustu kreppu. Fyrirtækin halda ekki eins að sér höndum þó að við höfum áhyggjur af því að þar hafi fjárfestingarstigið ekki verið nægilega hátt. Ríkisstjórnin er sömuleiðis í átaki. Við erum að senda um 400 milljarða út í hagkerfið á síðasta ári og þessu og við erum með algjört met í halla ríkissjóðs til þess einmitt að róa að því öllum árum að auka umsvif og styðja við þegar mest þarf á að halda. Svo koma menn hér upp og segja: Hér er ekki neinn metnaður hjá mönnum. Má ég vekja athygli á því að við erum með yfir 300 milljarða halla á ríkissjóði á þessu ári. Það eru um 40% af tekjum ríkissjóðs. Telji menn það ekki vera metnað í verki þá veit ég ekki hvað menn eru að biðja um og þegar talað er um að eitthvað það sem við gætum gert núna myndi skapa fleiri störf langt inni í framtíðina þá vil ég bara vekja athygli á því að störfin sem töpuðust í ferðaþjónustunni voru fyrst og fremst þegar 2 milljónir ferðamanna hurfu af landinu. Það er það sem gerðist. Það er ekki hægt að tala um þetta eins og einhvern breiðan almennan vanda í atvinnulífinu.