151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þvert á móti. Skoðum afkomu ríkissjóðs. Það munar um 70 milljörðum borið saman við spár. Skoðum einkaneysluna, skoðum stöðu heimilanna, skoðum kaupmátt launa sem sögulega hefur aldrei verið hærri. Þó að hagvöxtur í ár verði minni þá leiðir það af því að landsframleiðslan í fyrra, og reyndar árið 2019 sem hefur verið leiðrétt, er meiri en áður var spáð, þannig að landsframleiðslustigið er að hækka. Hagvöxturinn í ár skiptir miklu minna máli en sú staðreynd að fram á við litið verður landsframleiðslan að jafnaði töluvert meiri, þannig að það er að sjá ekki skóginn fyrir trjánum að festa sig í hagvaxtartölum fyrir árið 2020.

Við höfum ekki teljandi áhyggjur af verðbólgunni þó að ég heyri að hv. þingmaður lýsi áhyggjum af verðbólgustiginu. Þá vil ég á móti svara því að markaðsaðilar virðast ekki telja miklar líkur á því. Ég bendi á stöðugt gengi. Ég bendi á yfirlýsingar Seðlabankans um að þar sé ekki gert ráð fyrir viðvarandi hærri verðbólgu. Ég bendi á nýjustu ákvörðun Seðlabankans í vaxtamálum. Hver er hún? Hún er sú að viðhalda lægstu vöxtum sem við höfum séð í sögunni, viðhalda þeim. Það lýsir ekki mikilli trú á vaxandi verðbólgu að taka slíka ákvörðun. Einkaneyslan í fyrra var fram úr öllum væntingum stanslaust og m.a., segi ég, vegna efnahagslegra ráðstafana en líka vegna vel heppnaðra ráðstafana á sóttvarnastiginu. Allt eru þetta merki um að við gerðum betur. Þetta er bjartsýnni áætlun heldur en sú sem samþykkt var í desember og þess vegna segi ég: Við erum á réttri leið, við erum með réttar áherslur og við getum haldið áfram að fara fram úr væntingum.