151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig að það sé nú útskýrt þá hef ég eingöngu sagt, þegar hv. þingmaður nefnir dæmi um þá sem eru á bótum almannatrygginga og hafa engar aðrar tekjur til að styðjast við af nokkru tagi, að sá hópur sé tiltölulega lítill. Staða hans hefur hins vegar batnað töluvert á undanförnum árum og ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það sé erfitt að finna tímabil undanfarna áratugi þar sem staða láglaunahópa í landinu hefur batnað jafn hröðum og öruggum skrefum og átt hefur við undanfarin ár. Það leiðir bæði af skattbreytingum sem við höfum verið að gera, þar sem sjónum hefur verið beint sérstaklega að lægri tekjuendanum, og breytingum í bótakerfunum. Ég vísa sérstaklega til breytinga sem voru gerðar árið 2016 og vörðuðu ekki síst eldri borgara en líka þeirrar áherslu sem við höfum lagt á að styrkja almannatryggingakerfið, núna síðast með breytingu sem félagsmálaráðherra kynnti til sögunnar. Við höfum ráðstafað sérstökum 4 milljarða sjóði sem tekinn var til hliðar til þess einmitt að ná markmiðum á þessu sviðinu. En þetta er mikil áskorun.

Mín pólitík gengur út á það að styðja við verðmætasköpun í landinu þannig að við höfum efni á að standa með þeim sem höllum fæti standa. Við erum daginn út og inn að takast á um það hér í þinginu hvað megi verða til þess í skattaáherslum, í öðrum áherslum um umsvif ríkisins, hvað við getum gert til þess að standa með fyrirtækjum, hvetja fólk áfram, reyna að tryggja að góðar hugmyndir falli í frjóan jarðveg svo verðmæt störf verði til. Allt eru þetta pólitískar áherslur sem eru einmitt til þess hugsaðar að hér verði til verðmæti í samfélaginu til að standa með því fólki sem hv. þingmaður nefnir. (Forseti hringir.) Það dugar þess vegna ekki það eitt að hafa þá pólitík, maður þarf líka að hafa lausnir til þess að geta staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til kerfisins.