151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026. Eins og komið hefur fram í umræðunni og í framsögu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er þessi tillaga lögð fram við afar sérstakar og óvenjulegar aðstæður og blekið vart þornað á gildandi fjármálaáætlun 2021–2025. Þá erum við stödd á mjög viðkvæmum tíma og við stöðugt minnt á það hvað varðar sóttvarnir og framvindu bólusetningar en ekki síður efnahagslega séð. Við erum á krítískum tímapunkti þar sem við eigum mikið undir framvindu bólusetninga og því að halda veirunni í skefjum og horfa fram úr þessu ástandi og afleiðingum sem faraldurinn hefur leitt af sér.

Í annan stað er stutt í kosningar og óhjákvæmilega mun því fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár hvíla á fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar sem verður lögð fram samhliða ásamt því að fjármálaáætlunin mun hvíla á þeirri stefnu. Þessi áætlun hér gefur hins vegar skýra mynd af því, miðað við fyrirliggjandi forsendur og spár, hvaða sviðsmyndir við erum að horfa á fyrir fjárlagaárið 2022, auk heildarmyndar ríkisfjármálanna sem rammar útgjöld, tekjuöflun og skuldaþróun á áætlunartímabilinu. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Þessi fjármálaáætlun eins og hún er umbúin og fram sett er skynsamleg, hún er ábyrg og með tilvísun í gildandi fjármálaáætlun sem við samþykktum í desember og útgjaldaáætlun málefnasviða.

Hér er lögð áhersla á heildarmyndina og þær áskoranir sem við öll stöndum frammi fyrir á komandi misserum og árum. Undan þeim áskorunum verður ekki vikist. Það verður áskorun að setja saman áætlun og fjárlög þar sem haldið er áfram þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað á fjölmörgum sviðum. Um það ber raunaukning málefnasviða allt kjörtímabilið vitni. Þá hafa nauðsynleg viðbrögð og aðgerðir síðasta árið, sem útfærðar hafa verið m.a. í fjáraukalagafrumvörpum og breytingum á ýmsum lögum, sérlögum ásamt endurskoðun fjármálastefnunnar og fjármálareglunum þar vikið frá — allt þetta hefur sett mark sitt á ríkisfjármálin svo um munar. Þessi áætlun dregur upp mjög skýra mynd af áherslum og stefnumiðum og tiltekur þær aðgerðir sem nauðsynlegt var að fara í, af stöðunni í dag, horfum og sviðsmyndum út áætlunartímabilið.

Þegar ég tala um áskoranir, virðulegi forseti, þá er það staðreynd að til að takast á við slíkar aðstæður þarf sterka stöðu ríkissjóðs sem hefur gríðarlega mikilvægu hagstjórnarhlutverki að gegna. Við verðum öllum stundum að huga að því að ríkissjóður geti mætt sveiflum til jöfnunar og geti þegar verulega gefur á bátinn, eins og nú, mætt slíkum áföllum. Við erum hér að vinna með tæki, og þá vísa ég í fjármálaáætlunina, í samræmi við lög um opinber fjármál til þess að horfa inn í og meta framtíðina, til að geta með markvissari og skilvirkari hætti útfært stefnu og farið í nauðsynlegar ráðstafanir á fjárlögum hvers árs. Hér er í samræmi við lögin tekið mið af gildandi endurskoðaðri fjármálastefnu um þróun tekna, um þróun gjalda og um þróun skulda. Það er rammi sem er í samræmi við markmið og stefnu hæstv. ríkisstjórnar.

Ég held að það sé mikilvægt að fara yfir stefnuna sem við endurskoðuðum og samþykktum hér á Alþingi í september, til samræmis við þær aðgerðir sem við fórum í þegar fyrir ári síðan þegar fárið skall á, og undanfara endurskoðaðrar fjármálaáætlunar 2021–2025 sem er nú uppfærð til ársins 2026 frá og með næsta ári, ásamt því að við vikum frá fjármálareglunum svo við gætum nýtt af festu og með ábyrgum og skynsamlegum hætti stöðu ríkissjóðs til að mæta af öllu afli þessu gríðarlega efnahagsáfalli, þessari djúpu kreppu. Tilefni þessa ferlis og óhjákvæmilegra viðbragða deilum við ekki um, en rifjum upp stefnuna: Að draga ekki úr umfangi opinberrar þjónustu ásamt því að falla ekki frá fyrri áformum og markmiðum. Beita fjármálum hins opinbera markvisst til að tryggja stöðugleika og skapa efnahagslega viðspyrnu. Áhersla lögð á framkvæmdir og tilfærslukerfi þrátt fyrir fyrirsjáanlega tekjurýrnun ríkissjóðs. Grípa til margvíslegra mótvægisaðgerða. Meginmarkmið aðgerðanna var að milda það tjón heimila og fyrirtækja og atvinnulífsins sem við stóðum frammi fyrir. Síðan er þetta oft notað: Að leyfa sjálfvirkum sveiflujöfnurum ríkisfjármálanna að virka til fulls. Við erum með mjög öflugt kerfi þar, það hefur sýnt sig. Þess vegna var afkomuviðmiðum og viðmiðum um skuldahlutföll breytt, virðulegi forseti. Hér er beinlínis verið að setja áætlanir fram í fullu samræmi við þessa stefnu. Hún er beinlínis sett til að skapa svigrúm til að mæta þeirri stöðu sem við blasti. Það var jafnframt sett inn óvissusvigrúm til þess að mæta óvissunni sem hefur verið allan tímann og er enn, virðulegi forseti. Við getum tekist áfram á við þetta, mildað höggið og stutt fyrirtæki og heimili með sértækum aðgerðum þess utan.

En höfum við gengið götuna til góðs hingað til þegar við horfum til viðbragða í efnahagsmálum vegna kórónuveirufaraldursins og til hvers eigum við að horfa? Helstu tíðindin eru að viðbrögðin hafa skilað sér á margan hátt vel og staðan er betri, það vitum við nú, en í desember. Til að mynda verður samdrátturinn minni, framleiðslutapið er minna. Þess vegna mælist hagvöxturinn minni eins og hann er mældur. Afkoman er jákvæðari en á horfðist og sama gildir um skuldaþróunina. Þetta verður jákvætt fyrir okkur öll til að takast á við þau ár sem eru undir í þessari áætlun. Skuldir ríkissjóðs verða samkvæmt þeim spám sem og á sviðsmyndum sem við horfum til 5 prósentustigum lægri eða 46,4%. Þau tíðindi gefa sterkt til kynna að við getum vel klárað okkur af þessu verkefni og komist í gegnum þetta.

Jú, það verður áskorun að ná þeim meginmarkmiðum sem boðuð eru í þessari áætlun; að stöðva skuldasöfnun 2025, að ná frumjöfnuði í jafnvægi fyrir árslok 2025 þannig að við getum virkjað fjármálareglur 2026. Það er gerlegt að vinna niður skuldir og neikvæðan vaxtajöfnuð og það er afar mikilvægt til að geta tekist á við vaxtajöfnuðinn og skuldabyrðina. Á sama tíma er mikilvægt að standa vörð um og efla tilfærslukerfi okkar. Áskorunin felst í að fara verður í afkomubætandi ráðstafanir á tímabilinu 2023–2025, vissulega minni að umfangi en fyrri áætlun boðaði og á auðvitað eftir að endurmeta árlega. Í ljósi óvissunnar er ekkert hægt að fullyrða á þessari stundu. Eins eigum við eftir að fá álit fjármálaráðs og mat á því hvort yfirlýst markmið og framfylgd þeirra í samræmi við áætlun gerir kleift að virkja fjármálareglur að nýju 2026. Fjárfesting undanfarinna ára í efnislegum og félagslegum innviðum mun skila sér í því verkefni að vinna upp framleiðslutapið og öðlast fyrri efnahagslegan styrk.

Gleymum því heldur ekki að það er hvorki innbyggt í þessa áætlun né fyrri áætlanir að viðspyrnan verður líklega kröftugri hér með sama hætti og samdrátturinn var kröftugri hér eða niðursveiflan í samanburði við aðrar þjóðir, til að mynda Norðurlandaþjóðirnar. Vægi ferðaþjónustunnar er óumdeilt aðalþátturinn í því. Það er auðvitað þungt að horfa til þeirra sem hafa misst vinnu og fyrirtækja sem berjast fyrir tilveru sinni. Það er mikilvægast að átta sig á því að þessari baráttu er ekki lokið og við verðum að einbeita okkur að því að tryggja áframhaldandi stuðning við atvinnulífið og tryggja úrræði fyrirtækja, aðallega þeirra sem starfa í ferðaþjónustunni, til að fleyta sér áfram og inn í hina eiginlegu viðspyrnu, sem og tekjur þeirra sem hafa misst vinnu og tryggja atvinnusköpun og virkni áfram inn í viðspyrnutímabilið sem við horfum til í þessari áætlun. Boðað átak, Hefjum störf, er hluti af því en það þarf meira að koma til og við eigum að einbeita okkur að því næstu daga, vikur og mánuði. Þetta snýr að því að framlengja þau úrræði sem hafa virkað vel, hlutastarfaleiðina og fleiri úrræði sem hér hefur verið komið inn á. Og það þarf að segja það strax, það þarf að segja það hér og nú að vinnustaðastyrkir verða að nýtast fyrirtækjum og um leið leggjum við áherslu á að koma fólki í virkni og að skólafólk gangi að vinnu í sumar og námi í haust. Ég vil eyða kröftum mínum í það hér og nú og næstu daga og það er það sem við eigum að vera að gera. Þessi áætlun er góð og gild og nauðsynleg. Hún leysir okkur ekki undan því að klára þetta verkefni. Áformin sem í henni birtast eru miklum mun fremur háð því að við höldum einbeitingunni og við tryggjum það næstu mánuði að við verðum öll tilbúin í viðspyrnuna; í sóttvörnum; í bólusetningum og efnahagslegum stuðningi við heimili og fyrirtæki. Stóra verkefnið hér og nú og fram undan er að vinna niður atvinnuleysið hraðar og meira — en sú mynd sem dregin er upp hér byggir á spám — með öllum tiltækum ráðum og koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi, tryggja tekjur og virkni.