151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:45]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi aðhaldskröfuna, hálft prósent, þá hefur verið sagt að heilbrigðisþjónustan muni verða tryggð og þessi aðhaldskrafa skiptir ekki sköpum í því samhengi. Ég hef áður sagt að það sé sjálfsagt að gera kröfu um aðhald í öllum opinberum rekstri en við eigum ekki að setja flata aðhaldskröfu á allt kerfið. Ég er bara á móti því svo við tölum um það almennt. Ef hv. þingmaður er að vísa í þá aðhaldskröfu sem fellur á Landspítalann, og við höfum rætt það áður, þá skiptir hún ekki sköpum. Það kom fram í fyrri andsvörum að búið væri að gera samning um uppsafnaðan halla. Ég vildi líka koma inn á það að við í hv. fjárlaganefnd þurfum að fá að sjá þann samning þegar hann liggur fyrir og um hvað hann snýst. Það er mjög mikilvægt að skilaboð til heilbrigðisþjónustunnar við þessar kringumstæður séu þau að við stöndum með heilbrigðisþjónustunni og hún fái þá fjármuni sem til þarf, ekki síst til að takast á við þær kringumstæður sem eru uppi núna.

Varðandi þær tölur sem hv. þingmaður kom inn á að væru að lækka þá verðum við að greina það núna, á milli umræðna, hvað eru tímabundnar ráðstafanir sem falla út, Covid-ráðstafanir, og hvað eru einskiptisráðstafanir og eins hagræna skiptingu, ef það eru fjárfestingarliðir þarna inni. Þegar við erum búin að fara í gegnum það (Forseti hringir.) þá sjáum við raunaukninguna allt tímabilið og hvað raunverulega er um að ræða.