151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir gott svar og ég fagna því að hann er í liði með mér með það að við þurfum svo sannarlega að bæta úr þessu og fá það algerlega á hreint hvaða árangri aðgerðir skila þegar við erum að setja svona háa fjármuni í málaflokka eins og loftslagsmálin. Ég minni reyndar á að hæstv. umhverfisráðherra sagði í svari við fyrirspurn sem ég lagði fyrir hann fyrir nokkru að það væri mjög erfitt að segja til um árangurinn þegar kemur t.d. að því að auka kolefnisbindinguna. Það væri erfitt að meta árangurinn. Það er náttúrlega umhugsunarefni hvort menn verði ekki að leggja það alveg á borðið hver árangurinn er. Ég vænti þess að formaður fjárlaganefndar beiti sér í þessu því þetta er mjög mikilvægt mál.

Aðeins í lokin, bara örstutt, um fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga í ljósi hins mikla atvinnuleysis. (Forseti hringir.) Það kemur náttúrlega til með auka byrðar á sveitarfélögin. Sér hv. þingmaður fyrir sér að það þurfi að mæta þeim með einhverjum hætti (Forseti hringir.) á næstu misserum vegna þessa?