151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:34]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum að fást við spár. Síðan er raunveruleikinn oft og tíðum annar. Því miður verðum við að segja að spárnar um atvinnuleysið hafi kannski ekki verið það nákvæmar en þó eru þau ánægjulegu tíðindi nú að atvinnuleysi hefur náð hámarki, samkvæmt tölulegum upplýsingum er það að ná hámarki. Vonandi. Atvinnuleysi er mikið mein. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því en allar okkar aðgerðir, eins og við erum að draga hér fram, og þess vegna höldum við okkur við þá stefnu sem ég rakti ágætlega í ræðu minni, hafa virkað til að grynnka þessa lægð kreppunnar þannig að við munum hafa öfluga viðspyrnu, öflugra samfélag til að spyrna aftur frá þegar áhrifum faraldursins léttir, sem vonandi verður fyrr en seinna. Það er stóra málið en ekki kannski spátölurnar á hverjum tíma fyrir sig. Við erum að koma inn í þetta ár með meiri verðmæti í landsframleiðslu en spár gerðu ráð fyrir og á þeim grunni stöndum við.