151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:37]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann var með tvo flokka af spurningum. Ég mun leitast við að svara þeim í einhverju samhengi. Þegar hv. þingmaður spyr mig um afkomubætandi aðgerðir og hvernig þær muni birtast þá held ég að það sé mjög heiðarlegt að við ræðum það núna, sérstaklega við lok kjörtímabils, þannig að við getum alla vega farið að birta hugmyndir okkar um það. Í fyrsta lagi vil ég segja að þar sem okkur hefur sem betur fer gengið betur en spár hafa gefið til kynna á undanförnum mánuðum þá er þörfin fyrir þessar afkomubætandi aðgerðir að minnka. Ég ætla ekki að falla í þá freistni að vona að vöxturinn verði meiri þannig að við þurfum ekki afkomubætandi aðgerðir. Þá tökum við það sömuleiðis fyrir í greinargerð fjármálaáætlunar til næstu ára hverjar þessar afkomubætandi aðgerðir geta verið, t.d. vegna bætts ríkisrekstrar, ég ætla ekki að tíunda það í stórum liðum, og síðan aðrar aðgerðir sem grípa verður til. Ég ætla ekki að fara lengra út í það.

Hv. þingmaður spyr hvers vegna við getum aldrei nokkurn tímann bætt afkomu þess fólks sem hann nefndi hér. Ég held að við deilum ekki um það, hv. þingmaður, að við höfum stigið þar mjög mikilvæg skref. Við höfum aukið kaupmátt þessa fólks verulega. Það liggja fyrir ágæt gögn um það. Varðandi það hvenær við getum stigið fleiri skref og tekið betur utan um þessa viðkvæmustu hópa þá held ég að við hv. þingmaður séum alveg sammála um að það þurfum við að gera og við þurfum að finna leiðir til þess.