151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mun nýta mínar fimm mínútur til að fara yfir stóru línurnar í fjármálaáætluninni, en er hér að sjálfsögðu til svara vegna þeirra málaflokka sem undir mig heyra. Eins og komið hefur fram var framlagningu fjármálaáætlunar vegna áranna 2021–2025 frestað í fyrravor en hún var lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi fyrir yfirstandandi ár í byrjun október síðastliðnum og afgreidd frá Alþingi í desember. Það þarf því í raun ekki að koma á óvart að ríkisstjórnin hefur ákveðið, í ljósi þess að Alþingi hefur nýlega lokið umfjöllun um stefnu og markmið og áætlanagerð allra málefnasviða, að halda sig við þá niðurstöðu Alþingis, sömuleiðis í ljósi þess að við erum á síðasta ári kjörtímabils. Í þessari fjármálaáætlun er fyrst og fremst horft á stóru myndina í ríkisfjármálum og hagstjórnarlegt hlutverk hins opinbera til næstu ára.

Það er ljóst að heimsfaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á stöðu ríkissjóðs. Nýr veruleiki blasti við strax í fyrravor með miklum tekjusamdrætti og fyrirsjáanlega auknum útgjöldum. Þá strax tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að sækja fram, bregðast ekki við fyrirsjáanlegum halla á ríkissjóði með því að draga saman og skera niður. Fjármálareglunum var vikið til hliðar og um leið verður það líka að segjast hér að góð staða ríkissjóðs við upphaf faraldursins, sterk skuldastaða og skynsamleg hagstjórn síðustu ára, hefur gert okkur kleift að bregðast við þessari nýju sveiflu af fullum krafti. Ég tel sömuleiðis að vel hafi tekist til hingað til í samspili ríkisfjármála, peningastefnu Seðlabanka og ákvarðana á vinnumarkaði. Ekki síst skiptir þetta samspil máli í erfiðum aðstæðum eins og eru nú uppi.

Ríkisfjármálunum hefur verið beitt til að tryggja óskerta starfsemi og stuðningskerfi hins opinbera, styðja við heimili og fyrirtæki sem orðið hafa illa úti í faraldrinum með beinum hætti og sömuleiðis með því að fjárfesta kröftuglega til framtíðar í menntun, innviðum, rannsóknum, nýrri tækni, sprotastarfsemi og ekki síst loftslagsaðgerðum. Ég tel þetta vera skynsamlega hagstjórn, bæði til lengri og skemmri tíma. Við sjáum árangur aðgerðanna birtast í minni niðursveiflu en ótti var um í fyrstu og betri horfum til framtíðar. Það er auðvitað töluverður munur á þjóðhagsspá Hagstofunnar nú og þeirri þjóðhagsspá sem lá til grundvallar fjármálaáætluninni sem samþykkt var í desember, töluverður munur sem mun skipta verulegu máli til framtíðar. Þegar faraldrinum linnir munum við sömuleiðis standa betur að vígi og verða fljótari að ná fyrri styrk að nýju sem mun skipta sköpum fyrir ríkisfjármálin og dregur úr þörf á ráðstöfunum til að bæta afkomu hins opinbera. Við tryggjum líka að efnahagslegar og félagslegar afleiðingar faraldursins verði ekki langvarandi og verði ekki til þess að auka ójöfnuð í samfélaginu.

Eins og ég nefndi er fjármálaáætlun í öllum meginatriðum í samræmi við gildandi áætlun. Breytingar snúast fyrst og fremst um útgjöld vegna frekari viðbragða við faraldrinum og betri afkomuhorfur ríkissjóðs. Stóra verkefnið núna er að ná niður atvinnuleysinu og þær aðgerðir sem við kynntum nýlega sem ætlað er að skapa allt að 7.000 störf með því að styðja við stofnanir hins opinbera, frjáls félagasamtök og lítil og meðalstór fyrirtæki til að ráða fólk af atvinnuleysisskrá, munu skipta verulegu máli í því verkefni. Sömuleiðis munum við tryggja að skólakerfið geti tekið við auknum fjölda nemenda og áfram stutt við atvinnuleitendur til að sækja sér nýja þekkingu. Sömuleiðis mun 119 milljarða kr. fjárfestingarátak á árunum 2020–2025 hafa jákvæð áhrif til að draga úr niðursveiflunni, fjölga störfum og skapa tækifæri til framtíðar.

Ég hlýt síðan að nefna að í þessari fjármálaáætlun eru enn aukin framlög til loftslagsmála. Bein framlög hafa áttfaldast á kjörtímabilinu og ný og metnaðarfyllri uppfærð markmið sem kynnt voru í desember kalla á frekari aðgerðir og því er árlega bætt við milljarði til málaflokksins á komandi árum til að efla enn frekari aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Ég tel að þetta skipti verulega miklu máli við að ná þeim markmiðum sem við höfum skuldbundið okkur til þess að takast á við.

Það liggur fyrir að stór verkefni munu blasa við þegar kemur að stjórn efnahagsmála og ríkisfjármála á næstu árum. En ég held varðandi þær aðgerðir sem við höfum þegar ráðist í kringum niðursveiflu í þessum heimsfaraldri, sem er eðlisólík niðursveiflu vegna þeirrar kreppu sem hér varð 2008 og kallar því á allt annars konar aðgerðir, að við séum þegar farin að sjá afrakstur þeirra í minni samdrætti og við munum sömuleiðis sjá afrakstur þeirra í því að hraðar (Forseti hringir.) mun draga úr atvinnuleysi en gert er ráð fyrir í þjóðhagsspá Hagstofunnar, enda er þjóðhagsspáin spá. Herra forseti. Okkar markmið hlýtur að vera að tryggja að þessi spá um atvinnuleysi, sem er það (Forseti hringir.) sem veldur mér mestum áhyggjum, raungerist ekki.