151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra talaði áðan um minni efnahagslegan skaða, bætta afkomu. Fyrir hvern? Vegna þess að þegar maður skoðar þessa fjármálaáætlun er svolítið eins og það sé markmið í sjálfu sér að ná einhverri sérstakri tölu út úr ríkisreikningnum í staðinn fyrir að viðhalda góðu samfélagi áfram. Það eru 26.000 Íslendingar sem glíma við atvinnuleysi og helmingur þeirra á erfitt með að ná endum saman. Þetta er auðvitað ömurlegt fyrir þau. En þetta er líka ofboðslega dýrt fyrir þjóðarbúið. Um 80% af halla ríkissjóðs í fyrra var vegna samdráttar í hagkerfinu og atvinnuástandsins, einungis 20% vegna beinna aðgerða. Það blasir því við að við munum ekki geta unnið á þessum halla og ekki komið ríkissjóði í jafnvægi nema við virkjum fólk, sköpum fleiri störf og örvum hagvöxt. Það er stóra verkefnið, að ráðast gegn atvinnuleysi. En það er ekki nógu mikið gert og ekki gefin nógu góð fyrirheit um það í þessari fjármálaáætlun, því miður. Og hvert er eiginlega markmið ríkisstjórnarinnar með þessari fjármálaáætlun? Er forsætisráðherra sammála sýn Sjálfstæðisflokksins um að sjálfbærni í ríkisbúskap snúist fyrst og fremst um tiltekið skuldahlutfall til skemmri tíma? Eða er hún sammála okkur í Samfylkingunni um að hún snúist frekar um atvinnuástandið til lengri tíma og það sé skynsamlegri leið, bæði til að ná niður halla og koma í veg fyrir vaxandi ójöfnuð og bæta afkomu allra í landinu?