151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég nefndi í máli mínu áðan að við hefðum vikið fjármálareglunum til hliðar í upphafi þessa faraldurs vegna þess, eins og hv. þingmaður bendir algerlega réttilega á, að lög um opinber fjármál gera hreinlega ekki ráð fyrir því að svona kreppa skelli á, sem er ekki bara efnahagsleg niðursveifla heldur snýst hún um miklu stærra mál sem er barátta við þennan vágest, þessa veiru sem hegðar sér með ófyrirsjáanlegum hætti. Það er mjög erfitt að smíða líkön til að leggja eitthvert mat á hvað gerist næst. Við erum búin að sjá það í gegnum þennan faraldur og allar bylgjur hans að hver bylgja hefur sín sérkenni. Og þó að við lærum af reynslunni þá er mjög erfitt að sjá langt fram í tímann, samanber það sem ég var að benda á áðan, að afkoman er núna á annað hundrað milljörðum betri á áætlunartímabilinu en við töldum að hún yrði í desember. Það eru ekki nema tæplega 100 dagar liðnir síðan þá, það er ekki langur tími. Þannig að ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta er tilefni til að ræða áætlanagerð á þessu sviði og hvernig við getum unnið meira út frá innri sveigjanleika, fleiri sviðsmyndum. Það er eitt af því sem fjármálaráð hefur bent á kringum lög um opinber fjármál, hversu mikilvægt það er að teikna upp ólíkar sviðsmyndir. Við höfum dregið þann lærdóm ekki síst af undanförnum misserum, þannig að ég tek undir með hv. þingmanni.

Svo vil ég nefna varðandi það sem hann segir um bóluefni og virkni þeirra, að nú horfa ríki heims til þess að fjárfesta í áframhaldandi þróun, í raun fasa tvö, í þessum bóluefnum. Það er það sem líklega mun gerast næst í þessum málum öllum; annars vegar eru ríki heims að reyna að ljúka bólusetningu hjá sér og það gengur mishratt, það verður að segjast, og síðan eru ríki að horfa til þess hvernig við förum (Forseti hringir.) inn í næsta fasa í þróun og uppfærslu bóluefna. Það verður risastórt verkefni.