151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:14]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Áður en ég fer út í þá áskorun sem við stöndum frammi fyrir núna og hv. þingmaður rakti mjög vel, þ.e. varðandi vaxtalækkun og aukna eftirspurn, og húsnæðisskort sem stafar af lóðaskorti, vil ég segja varðandi húsnæðismálin að við höfum ráðist í ýmsar aðgerðir í þeim efnum á kjörtímabilinu. Við höfum verið að bæta í almenna íbúðakerfið, sem er leiguíbúðakerfi sem ætlað er til þess að byggja íbúðir fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins. Það byggist á lagafrumvarpi sem þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttir, kom fram með árið 2016. Þarna höfum við jafnt og þétt verið að byggja fleiri íbúðir og mun það halda áfram. Þar náum við til þessa hóps. Síðan kynntum við ný hlutdeildarlán, en ætlunin með þeim er líka að ná til tekjulægsta hópsins og aðstoða þá sem ekki vilja vera á leigumarkaði til að komast í eigið húsnæði. Ríkið lánar 20–30% vaxta- og afborgunarlaust, til ákveðins árafjölda til þessara tekjulægstu hópa. Það eru auðvitað gríðarlega stórar aðgerðir.

En þegar kemur að umræðunni um hækkun húsnæðisverðs vegna þess að vextir hafi lækkað, þá hef ég fylgst aðeins með henni. Ég er ekki hagfræðingur og reyni að blanda mér ekki allt of mikið í þau mál. Mér hefur hins vegar fundist sérstök sú pólitík sem verið hefur í gangi þegar menn hafa talað um að ekki megi lækka vexti vegna þess að það hafi þensluáhrif á húsnæðismarkaðnum. En þá þurfum við að fara í hinn þáttinn sem er framboð lóða. Þar verð ég að segja að er mjög erfið staða fyrir ráðherra sem heldur á húsnæðismálum vegna þess að hann hefur ekkert með framboð lóða að gera. Það er annað stjórnsýslustig sem heldur á framboði lóða í þessu landi. Ég hef verulegar áhyggjur af framboðinu hjá því stjórnsýslustigi, sérstaklega með þeirri þéttingarstefnu sem er í Reykjavík, að við náum því ekki. Þannig að ég tek undir þetta. Það sem við getum gert er annaðhvort að hvetja sveitarfélögin með góðu (Forseti hringir.) til að skipuleggja lóðir eða koma með einhvers konar lög sem skylda þau til þess.