151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:28]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að svara öllum þremur spurningunum sem hv. þingmaður spurði, ég skuldaði honum eina frá fyrra andsvari sem laut að hlutdeildarlánunum. Það úrræði er auðvitað bara nýfarið af stað. Við skulum átta okkur á því í tengslum við lög um almennar íbúðir, sem samþykkt voru hér í þinginu 2016, að Alþýðusamband Íslands komst ekki af stað fyrr en 2018, 2019, tveimur til þremur árum seinna. Við erum samt þegar farin að sjá hlutdeildarlánaverkefnið komast af stað þar sem fjölskyldur hafa verið að finna húsnæði og eru að fara inn í það. Það eru tugir verktaka, mig minnir að það séu milli 70 og 80 verktakar, búnir að skrá sig til leiks hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem vilja byggja íbúðir í þessu kerfi þannig að við munum sjá fjölgun þeirra á næstu árum. Það gefur góða von um framtíð þessara laga, þ.e. hvernig þetta fer af stað.

Ég vil segja varðandi þá einstaklinga sem eru nú staddir í slíkum fjárhagsaðstæðum í tengslum við Covid að þeir geta ekki sótt sér mat o.s.frv., að það eru ýmsar krefjandi aðstæður sem fólk stendur frammi fyrir og ég tek undir með hv. þingmanni með það. Við höfum verið að vakta það með Félagsþjónustu sveitarfélaga vegna þess að við erum með lög í þessu landi sem fela félagsþjónustunni að sjá um framfærslu þessara hópa, aðstoða þá með einhverjum hætti. Við höfum lagt okkur í líma við að vera í miklu samstarfi við þetta þéttriðna net. Og bara síðast í morgun átti ég fund með félagsmálastjórum allt í kringum landið þar sem við vorum að ræða hverjar áskoranirnar væru núna og hvar þyrfti að bæta við o.s.frv. Síðan höfum við líka tengt inn í þetta net ýmis félagasamtök til að koma þarna inn. Einstaklingar sem eru í þessari stöðu eiga að snúa sér til sinnar félagsþjónustu, (Forseti hringir.) en margar aðgerðir sem við höfum ráðist í hafa einmitt miðað að því að styrkja (Forseti hringir.) starfsemina sem þar hefur farið fram. Þannig að við höfum gert ýmislegt. Er allt fullkomið sem við gerum? (Forseti hringir.) Nei, það er það ekki, ekki frekar en í lífinu sjálfu eða hjá nokkrum öðrum.