151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:41]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta svar. Eins og fram kom í ræðu ráðherrans þá skilaði aukið fjármagn til rannsókna á loðnustofninum því að við gátum hafið veiðar og skilað þjóðarbúinu upphæð sem er nálægt 30 milljörðum. Og munar nú um minna. Það segir manni að auknar rannsóknir skila árangri. Ég er alveg viss um að þær myndu líka gera það varðandi hinar tegundirnar sem ég taldi upp áðan. En það er náttúrlega mjög gott að vera varfærinn og láta náttúruna njóta vafans, eða fisktegundirnar í þessu tilviki. Það er algerlega rökrétt og ég tek undir það.

En miðað við þetta, að aukið fjármagn hafi skilað þeim árangri að við gátum farið að veiða loðnu aftur, þá hlýtur aukið fjármagn líka skila þeim árangri að við getum hugsanlega veitt meira af ýsu. Við gætum jafnvel farið að veiða lúðu aftur og grásleppan yrði kannski í meiri raunstærð í stofnstærðarmati en hún er í dag. Og talandi um að ekki sé sérmerktur peningur fyrir hverja fisktegund þá hlýtur Hafrannsóknastofnun að geta nýtt aukna peninga til frekari rannsókna og þá í þær fisktegundir sem ég taldi upp.

Ég get bara sagt það sem þingmaður sem er í góðu sambandi við sjómenn, að meðafli á hvítlúðu hefur aukist alveg gríðarlega síðustu ár og nú kalla menn (Forseti hringir.) eftir því að eitthvað sé gert í þeim málum sem skiptir máli.