151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, við erum á sama stað varðandi mikilvægi þess að auka grænmetisframleiðslu á Íslandi. Ég held að það sé mjög mikil samstaða um þær áherslur og þess vegna er ég að sjálfsögðu afskaplega þakklátur fyrir það traust og þann stuðning sem það mál fékk þegar við jukum áform okkar í grænmetisframleiðslu um heil 25% á tveimur til þremur árum við endurskoðun búvörusamninganna. Það hlýtur að vera fagnaðarefni öllum þeim sem hafa þessar áherslur uppi.

Það eru mörg og margvísleg verkefni sem falla ágætlega að þeim áherslum sem ég heyri að hv. þingmaður hefur. Ég ætla bara að nefna hér matvælastefnu fyrir Ísland, stefnu um opinber innkaup matvæla o.s.frv., allt er þetta komið í ákveðinn farveg og við erum að vinna að því við endurskoðun búvörusamninga þar sem við náum saman, bændur og stjórnvöld, um að setja okkur markmið á sviði loftslagsmála.

Af því að hv. þingmaður spyr hvaða verkefni séu hér undir þá eru þau öll í vinnslu. Verið er að skilgreina þetta með dyggri aðstoð stofnana vegum Bændasamtakanna, umhverfisráðuneytisins og míns ráðuneytis. Þetta er allt komið í ákveðið ferli. Markmiðin eru þokkalega skýr í ártölum en leiðirnar að þeim liggja ekki allar fyrir. Mér hefur stundum þótt okkur liggja miklu meira á að setja okkur markmiðin og gera kröfur um fjármuni án þess að vita yfir höfuð hvernig við ætlum að eyða þeim, hvernig við ætlum að mæla framgang þeirra o.s.frv. En það er á margan hátt skiljanlegt í ljósi áherslunnar sem uppi er í samfélaginu um að tryggja fyrst samstöðu um þessi stóru markmið, (Forseti hringir.) hvar við ætlum að vera árið 2040, taka til fjármuni og gefa okkur síðan tíma til að forma bæði skilgreininguna á verkefnunum og setja upp mælikvarða.