151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[22:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi sjálfbærni í grænmetisræktun þá er úrvalið alltaf að aukast og eftirspurnin er breytileg. Að stærstum hluta tel ég að við ættum að geta verið sjálfum okkur næg í þessu. Við höfum gæði, við höfum orku, við höfum vatn o.s.frv. Við höfum þekkingu. Við þurfum hins vegar á innflutningi að halda í ákveðnum aðföngum. Á sumum sviðum garðyrkju eigum við að geta verið sjálfbær í framleiðslu. Við erum með 43% af innanlandsneyslunni núna á þessu sviði þar sem við erum að framleiða sjálf. Það er eftir töluvert svigrúm þarna, 57%, sem við eigum að reyna að fylla upp í á sviði grænmetisframleiðslu.

Varðandi hagkvæmni og að strandveiðar eða handfæraveiðarnar efli litlu byggðirnar: Hefur byggð úti á landi styrkst á síðustu árum frá því að við bjuggum til þennan aukapott? Nei, hún hefur ekki gert það. Við sjáum bara að straumurinn liggur hingað suður þrátt fyrir að við séum að gera þetta. Ég hef sagt að besti stuðningur við byggðina sé ekki endilega á sviði þess að auka sauðfjárrækt eða setja meiri veiðiheimildir. Það snýst miklu meira um samgöngur og menntun, rannsóknir o.s.frv., sem við þurfum að tryggja íbúum úti á landsbyggðinni aðgengi að. En ég er fyrstur manna reiðubúinn til þess að ljá máls á því að við eigum að standa vörð um þessar byggðir. Sauðfjárræktin í landinu er í vandræðum og hefur verið lengi. Það varð einhver sprenging í þessu á árabilinu 2015–2016. Þá gekk þetta mjög illa. (Forseti hringir.) Meginvandræðin liggja í því að við framleiðum meira kjöt en eftirspurn er eftir innan lands. Nú er neyslan komin niður í (Forseti hringir.) 13–14 kíló á mann, sem er töluverður samdráttur á undraskömmum tíma, því miður.