151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

nýjustu aðgerðir vegna Covid-19 og horfur í ferðaþjónustu.

[13:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Fréttir gærdagsins í tengslum við veiruna og viðbrögð stjórnvalda við þeim tíðindum voru kannski ekki alveg það sem við vorum nú flest að vonast eftir, þ.e. að veiran kæmi upp. Aðgerðirnar sem gripið er til, sóttvarnaaðgerðirnar, eru skiljanlegar og hef ég engar athugasemdir við það. En það eru hin efnahagslegu áhrif sem maður er að velta fyrir sér, og það kom ekki skýrt fram í gær að boðað væri til sérstakra aðgerða á efnahagshliðinni vegna þessa. Það blasir við að við erum að sigla aftur inn í tímabil lokana og við vitum að fjölmörg fyrirtæki verða illa fyrir barðinu á þessu.

Það liggur líka fyrir að við vorum að vonast eftir því að ferðamannaiðnaðurinn tæki mjög við sér í sumar og efnahagsspár ganga mjög út á það. Í forsendum nýrrar hagspár Hagstofunnar er talað um 700.000 ferðamenn á þessu ári. Það gengur illa að ná niður verðbólgunni og atvinnuleysi er mjög hátt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að taka nokkuð til endurskoðunar og þá bregðast við, hvort við þurfum ekki að fara að horfast í augu við það, þó að við vonum að það verði ekki þannig, en líkurnar verða alltaf meiri og meiri á því, að ferðamennirnir muni ekki koma til landsins nema í miklu minna mæli en allar forsendur gera ráð fyrir.