151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið eru bæði útgjöld og stefnur málefnasviða í þessari fjármálaáætlun að mestu samhljóða þeirri sem Alþingi samþykkti fyrir fáeinum mánuðum, í desember. Ég vil eins og þá draga sérstaklega fram þá þungu áherslu sem ríkisstjórnin hefur lagt á aukinn stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun. Það hefur verið hálfótrúlegt að heyra því haldið fram undanfarið að endurskipulagning á stofnanaumhverfi nýsköpunar skyggi á þessa áherslu, því hún gerir það svo sannarlega ekki. Staðreyndin er sú að framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hafa vaxið hlutfallslega mest að umfangi af öllum málaflokkum á starfstíma þessarar ríkisstjórnar eða um ríflega 70%.

Blásið hefur verið til sérstakrar sóknar í nýsköpun vegna heimsfaraldursins, enda er nýsköpun eitt stærsta og veigamesta svarið andspænis því mikla efnahagsáfalli sem við stöndum frammi fyrir. Að styðja við hugvit, sköpun og framtakssemi frumkvöðla af meiri krafti en áður er eitt af því mikilvægasta sem mun leggja grunn að viðspyrnu efnahagslífsins og framtíðarvelferð þjóðarinnar. Það er okkar sýn og það er okkar stefna og hún birtist með mjög afgerandi hætti í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og þessari fjármálaáætlun. Til að nefna dæmi má benda á að framlög í Tækniþróunarsjóð hækka á þessu ári um 1,3 milljarða frá fyrra ári. Sjóðurinn hefur aldrei í sögunni haft jafn mikið fé til ráðstöfunar og sú hækkun heldur sér á næsta ári samkvæmt þessari fjármálaáætlun.

Lóa, nýr 100 milljóna króna fjárfestingarsjóður fyrir landsbyggðina er tekinn til starfa, en á þriðja hundrað umsókna bárust á dögunum í þennan nýja sjóð sem sýnir hve brýnni þörf er verið að svara með einmitt honum. Hann fær aftur 100 milljónir á næsta ári samkvæmt fjármálaáætlun. Þá renna á næstu árum 8,3 milljarðar til Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, en Kría styrkir og eflir nýsköpunarumhverfið í þágu fjárfestinga í íslenskum vísisjóðum sem síðan fjárfesta í vexti frumkvöðlafyrirtækja.

Þessar afgerandi aðgerðir skipta sköpum við núverandi aðstæður en ég vil, þrátt fyrir þessi dæmi, líka ítreka það sem ég hef sagt áður, að almennt séð er það alls ekki höfuðmarkmið mitt að auka ríkisútgjöld sem allra mest og til sem lengstrar framtíðar.

Herra forseti. Fyrirtæki í ferðaþjónustu standa sem kunnugt er frammi fyrir bráðavanda sem ríkisstjórnin hefur komið til móts við með bæði almennum og sértækum aðgerðum. Útgjöld vegna þeirra birtast að mestu annars staðar í þessari fjármálaáætlun en undir sjálfu málefnasviðinu, en ferðaþjónustan hefur að sjálfsögðu notið drjúgs hluta af almennum stuðningsaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur lagt til og Alþingi hefur haft til meðferðar og samþykkt.

Fyrir Covid höfðum við markað framtíðarsýn og leiðarljós ferðaþjónustunnar þar sem sjálfbærni og arðsemi gegna lykilhlutverki fremur en fjöldi ferðamanna, ásamt því að þróa Jafnvægisás ferðamála sem stýritæki fyrir greinina. Þessi verkfæri munu gagnast vel við uppbyggingu greinarinnar og stefnuramminn stendur á styrkum stoðum þrátt fyrir það áfall sem Covid-faraldurinn er og hefur verið fyrir greinina og jafnvel má segja að sá rammi eigi bara enn betur við en áður. Við höfum áfram fulla trú á að ferðaþjónustan muni taka kröftuglega við sér um leið og aðstæður leyfa og til að styðja við þá sókn höfum við sem kunnugt er sett verulega fjármuni til hliðar í alþjóðlegt markaðsverkefni sem er vissulega hafið en á enn þá mikið inni, meiri hlutann inni.

Viðbótarfjármagn til ferðamála sem kynnt var í síðustu fjármálaáætlun er þegar byrjað að skila sér í auknum framlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og einnig í nýju verkefni um skilgreiningu á fyrirmyndaráfangastöðum, sem kynnt verður betur á næstunni.

Í orkumálum ber að sjálfsögðu hæst nýja orkustefnu og aðgerðaáætlun fyrir Ísland. Orkustefnan er unnin í þverpólitísku samstarfi sem kynnt var í fyrra en ég vil vekja sérstaka athygli á þeirri breytingu frá síðustu fjármálaáætlun að framlög til orkuskipta eru hækkuð um tæpa 2 milljarða kr. á tímabilinu sem um ræðir, þar af um u.þ.b. hálfan milljarð á ári næstu þrjú ár. Þetta styður verulega við markmið okkar um að Ísland verði áfram leiðandi í orkuskiptum og styður við metnaðarfull markmið okkar um að verða óháð jarðefnaeldsneyti sem er stórt tækifæri fyrir okkur, bæði efnahagslega og umhverfislega. Í þessari uppbyggingu og það að við sem land staðsetjum okkur á þessu sviði felast gríðarlega mikil tækifæri til atvinnusköpunar, verðmætasköpunar, til þess að skapa gjaldeyristekjur og ný og verðmæt störf og að við séum einfaldlega að bjóða upp á áhugaverðan valkost til uppbyggingar á slíkum verkefnum og við höfum svo sannarlega margt fram að færa sjálf.

Þá er vert að minna á að í lok síðasta árs var samþykkt að full jöfnun á dreifikostnaði raforku um landið yrði tryggð frá og með næsta hausti. Þá mun áður kynnt átak í jarðstrengjavæðingu og þrífösun gera okkur kleift að ljúka ákveðnum markmiðum þar á fimm árum í stað 15 ára og fækka truflunum í dreifikerfi raforku um 85%.

Herra forseti. Þetta eru í örstuttu máli breiðu línurnar hvað varðar þá málaflokka sem undir mig heyra. En ég fagna því að fá tækifæri til að eiga samtal við þingmenn um einstök atriði hér á eftir.