151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:53]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég myndi segja að stjórnvöld hefðu klárlega hlutverki að gegna hér og þær ákvarðanir sem teknar eru hafa áhrif. Þess vegna skiptir máli að hafa þennan skýra stefnuramma og regluverkið skiptir máli og ákvarðanataka, hvernig við forgangsröðum og beinum fjármunum í uppbyggingu og í markaðssetningu. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða skiptir máli til að fjölga seglum en við erum síðan líka með ákveðin markmið. Við horfum á heildarneyslu erlendra og innlendra ferðamanna, eins og hv. þingmaður kom inn á. Við horfum á árlega aukningu útgjalda hvers erlends ferðamanns. Við horfum á ánægju með fjölda ferðamanna í heimabyggð og hlutfall gistinátta á hótelum utan háannatíma á landsbyggðinni. Hæfnissetur er síðan til að stuðla að frekari gæðum og við notum mörg önnur tæki til þess. Við erum með áfangastaðastofur, áfangastaðaáætlanir sem eru þá úti á svæðunum til að svæðin sjálf ákveði sérstöðu sína, hvernig áfangastaður þau vilji vera og reyni að vera í tengslum við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hafa í huga fjármálaáætlanir sveitarfélaga til þess að forgangsraða fjármunum í uppbyggingu á þeim stöðum sem eru í samræmi við áfangastaðaáætlanir og þá segla sem svæðin sjálf vilja koma á fót. Svo erum við með Íslandsstofu með greiningar og stefnumótun og hvernig við ráðstöfum þessu markaðsfé.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það að gera kröfur á leiðsögumenn og á fyrirtæki að ráða ákveðna tegund leiðsögufólks til sín, sérstaklega í þyngri ferðum þar sem tryggja þarf öryggi fólks, er leið til þess að auka gæði. En til að upplýsa hv. þingmann þá hef ég ekki skipt um skoðun varðandi fyrirframákveðnar kröfur um hverjir nákvæmlega megi vera leiðsögumenn. En mér finnst allt annað að gera kröfur til þeirra og fyrirtækja í ákveðnum ferðum eftir tegundum þeirra. (Forseti hringir.) Það er sú vinna sem við erum einmitt að vinna með leiðsögumönnum og er klárlega stýritæki til að auka gæði.