151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:57]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Stóra breytingin er vissulega 35% hlutfallið sem við hækkuðum úr 25% og er tímabundið. Það þarf þá að taka afstöðu til þess hvort við framlengjum þá tímabundnu ákvörðun. Hún hefur það í för með sér að liðurinn hefur hækkað mjög í útgreiðslu en það þýðir líka að mikil gróska er í rannsókna- og þróunarstarfi á Íslandi. Við erum að vinna að því og ég hef lagt áherslu á það að þessi framkvæmd sé tekin út þannig að við séum alveg viss um að það séu eingöngu raunveruleg rannsóknar- og þróunarverkefni sem fá endurgreitt. Það þarf að vera alveg skýrt vegna þess að þetta er mikil ívilnun og með skýr markmið og við þurfum að vera alveg viss um að sú framkvæmd sé í samræmi við þau markmið. Niðurstaða úr þeirri vinnu mun liggja fyrir áður en við stöndum frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort framlengja eigi þetta tímabundna ástand.

Við gerum ráð fyrir að Lóa verði ekki bara á þessu ári og því næsta. Það fóru 700 milljónir í Nýsköpunarmiðstöð og partur af þeirri vinnu er að ráðstafa 100 milljónum í Lóu þannig að við séum með það tryggt að 100 milljónir fari út á svæðin á ári í samræmi við styrki sem berast þannig að svæðin sjálf geti svolítið fundið út úr því hvar þau vilja sækja fram og hvað virkar á hverju svæði fyrir sig.

Ég get ekki sagt að ég hafi meiri háttar áhyggjur af stöðu nýsköpunarmála hér á landi eða útgjaldaþróun eða stuðningi hins opinbera til nýsköpunarumhverfisins þrátt fyrir að þær breytingar sem hv. þingmaður lýsir muni eiga sér stað ef ekki er tekin önnur ákvörðun. Við finnum bara hvað það er ótrúlega mikið að gerast og hvað umhverfið er að þroskast mikið. Fjármunir eru að stóraukast, nýir íslenskir sjóðir, fjármunir að utan sem koma inn í umhverfið hér. Það er verið að ráða fjöldann allan af starfsfólki. Tengslin eru að aukast. Vegna Covid-faraldursins erum við að fá margt af okkar mest framúrskarandi fólki aftur til landsins og í því felast líka, svo maður líti á björtu hliðarnar, mjög mikil tækifæri. Ég hef ekki áhyggjur af því og ég trúi því að umhverfið sé að þroskast varanlega og til lengri framtíðar hér á Íslandi.