151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:14]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026. Við erum að ganga í gegnum eina dýpstu efnahagskreppu síðustu 100 ára en í fjármálaáætlun, sem nú um ræðir, er mörkuð skýr stefna fram á veginn. Vonandi erum við að ná tökum á þessum heimsfaraldri með bólusetningum sem við sjáum fram á að ljúki um mitt sumar. Ríkisfjármálum hefur verið beitt markvisst til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum faraldursins með fjölmörgum og fjölþættum aðgerðum; hlutabótaleiðin, tekjufallsstyrkir, lokunarstyrkir, tekjutengdar atvinnuleysisbætur og fleira. Þessar aðgerðir hafa sannað gildi sitt undanfarið ár og dempað höggið.

Fjárfestingarverkefni hafa verið nýtt í að byggja upp innviði landsins með áhrifaríkum hætti. Í dag eru nýframkvæmdir í vegamálum í hámarki til að verja og skapa störf. Það var líka sérstaklega farið í fjárfestingu í dreifi- og flutningsleiðum raforku og þá sérstaklega tengdum fárviðrinu í desember 2019. Arðgreiðslur Orkubús Vestfjarða og Rarika til ríkisins námu um 400 millj. kr. á ári. Þörf þessara félaga er mikil fyrir nýfjárfestingar og viðhald og það er mikilvægur þáttur í að auka afhendingaröryggi og tekjur félaganna til frambúðar.

Virðulegi forseti. Í þessu sambandi væri gott að heyra frá hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hvort hún telji að farið verði í auknar fjárfestingar á næstu misserum til áframhaldandi uppbyggingar dreifikerfis raforku.