151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:37]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég vona heitt og innilega að þetta gangi allt eftir og sérstaklega hvað það varðar að almenningur standi betur að vígi gagnvart nýbyggingum og rannsóknum á myglu þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því langt inn í framtíðina. En hæstv. ráðherra er líka með annan málaflokk sem er aðgengi að ferðamannastöðum. Við höfum áður tekist á um það. Því miður er aðgengið alls ekki nógu gott. Það er mjög sorglegt að þegar verið er að reyna að gera vel á ferðamannastöðum þá gleymist oft aðgengi fatlaðra, t.d. eru tröppur að salernum og jafnvel að þjónustumiðstöðvum. Það gleymist að hafa aðgengi þannig að þeir sem eru í hjólastólum eða aðrir sem eiga erfitt með að ganga komist að. Er það framtíðarsýn hæstv. ráðherra að sjá til þess að það gleymist ekki á næstu árum að tryggja aðgengi fatlaðra?

Og svo er það ferðagjöfin: Er ekki tilvalið að gefa meira til þeirra sem hafa verið innilokaðir út af Covid í langan tíma, eru með undirliggjandi sjúkdóma, eru fatlaðir, eru öryrkjar, eru hreyfihamlaðir; að hafa hærri ferðagjöf fyrir þessa einstaklinga? Þeir hafa minni fjárráð og hafa minni möguleika á því að ferðast innan lands. Er ekki tilvalið að gefa þeim tækifæri og spýta vel í lófana og láta þau fá almennilega upphæð þannig að þau geti virkilega nýtt sér ferðagjöfina innan lands til að heimsækja ferðamannastaði, a.m.k. þar sem aðgengi er komið í lag?