151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Takk fyrir fyrirspurnina og framhaldið á umræðunni í dag af því að ég held að hún þurfi að verða aðeins dýpri. Það er einfaldlega þannig að menn styðjast við mismunandi staðla sem flokka hlutina aðeins ólíkt og við eigum að kalla á klárar útskýringar á því frá kerfinu okkar.

Ég fékk fyrirspurn í morgun um að fjárfesting hins opinbera hefði minnkað og síðan var allt sem um var rætt fjárfesting ríkissjóðs og eiginlega helst í samgöngum og ég var bara að benda á að það væri rangt. Staðreyndin er sú að fjárfestingar ríkisins hafa aukist en fjárfestingar sveitarfélaga hafa minnkað. Þegar við tölum um hið opinbera þá erum við líka að tala um félög. Við vitum auðvitað að Isavia var með stórkostleg áform, svokallað „master plan“, með leyfi forseta, en því var auðvitað frestað því að tekjuhrunið varð þar algert í fyrra. Það eru því nokkrir hlutir sem skýra þetta. Við höfum líka séð að þegar við fjárfestum til að mynda í því sem við lítum á sem fjárfestingu í nýsköpun þá flokkast það stundum aðeins öðruvísi. Þetta höfum við aðeins rætt við ráðherraborðið og sagt einfaldlega að það væri mjög mikilvægt að við fengjum nákvæma greiningu á þessu. Ég er sammála þingmanninum að við þurfum að geta talað um staðreyndir eins og þær eru en ekki vera að deila um þær. Staðreyndirnar eru þær að þegar kemur að fjárfestingum í málaflokkum mínum þá veit ég þær tölur. Ég sé þær framkvæmdir og var að útskýra fyrir hv. þingmanni hér fyrr í dag að ef hann tryði því ekki þá gæti ég farið með hann í bíltúr og hv. þm. Bergþór Ólason er velkominn með í þann bíltúr.

(Forseti (BN): Það er spurning hvort það sé pláss fyrir okkur báða í sama bílnum.)