151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir boðið í bíltúr, ég er alltaf áhugasamur um að keyra um nýframkvæmdasvæði. En það er annað atriði sem mig langar til að koma inn á hér. Í 1. viðauka plaggsins í töflu 5 er fjármálaliðurinn samgöngu- og fjarskiptamál með fjárlögin 2020 upp á 48 milljarða, fjárlög 2021 upp á 59, síðan aftur niður í 50 og endar í 42 á áætlunartímabilinu. Þetta er sem sagt rúmlega 20% lækkun á áætlunartímabilinu en á milli áranna 2020 og 2021 fer þessi tala upp um 23%. Er þetta ekki dálítið kosningalegt, hæstv. ráðherra? Ég spyr af því að þessi tala heldur síðan ekki. Það er ekki þannig að hún haldi aðeins áfram heldur dúndrast hún niður strax á árinu 2022, fer úr 59,5 milljörðum í 50 milljarða og 17 milljónir og þaðan niður í 48, 43, 42 og rétt lafir í 42 milljörðum árið 2026. Vissulega er möguleiki á að viðbótarfjárveitingar komi þegar fram líða stundir en eins og þetta liggur fyrir er þetta mjög kosningaplaggslegt og sérstaklega ef við höfum í huga hvernig Hagstofan virðist líta á þessar tölur og framkvæmdaumfangið.

Það var ágætt að hæstv. ráðherra kom inn á mikla umfangsminnkun í fjárfestingum sveitarfélaga. Nú er hæstv. ráðherra sömuleiðis ráðherra sveitarstjórnarmála og ég spyr: Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér í því að sveitarfélög komist á betri stað hvað þetta varðar? Auðvitað þekkjum við öll þá skelfingarstöðu sem er uppi í fjármálum Reykjavíkurborgar sem ætti að vera öflugasti fjárfestingaraðili landsins (Forseti hringir.) um þessar mundir fyrir utan ríkissjóð. Þannig ef tími vinnst til yrði ég þakklátur hæstv. ráðherra ef hann færi inn á fjárfestingargetu sveitarfélaganna þegar hann er búinn að útskýra fyrir mér að þetta sé auðvitað ekki kosningatala, vegaframkvæmdir ársins 2021.