151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á sveitarfélögunum. Í fjárhagsáætlunum yfirstandandi árs og næstu ára hafa fjárfestingar tekið verulega við sér og menn eru með í leiknum, með ríkinu, sem er mjög gott. Ég held að eðlilega hafi verið einhver hræðsla í upphafi faraldursins.

Nei, þetta er ekki kosningaplagg. Það er þannig að við fengum alheimsfaraldur og efnahagslífið hrundi og við settum af stað tvö fjárfestingarátök, eitt á árinu 2020 og annað á árinu 2021 sem varir fram á 2023. Þar áður vorum við búin að fullfjármagna mjög metnaðarfulla samgönguáætlun, sem sagt aðgerðaáætlun fyrstu fimm áranna, sem hafði síðan trappast niður og við erum ekki búin að bæta á. Það er verkefni næstu ríkisstjórnar og næstu samgönguáætlunar. Þannig að fjárfestingarátakið skýrir þennan háa mun. Það er til svo mikið af góðum og þörfum framkvæmdum í vegakerfinu vegna þess að Vegagerðin og samgönguáætlunin er kannski okkar elsta framkvæmdaplagg. Þar gátum við einfaldlega tekið verkefni úr hillunni sem mörg komust af stað strax í fyrra og kláruðust. Önnur fóru af stað en verða framkvæmd á þessu ári, þannig að framkvæmdirnar verða enn meiri á þessu ári. Sum þeirra teygja sig aðeins inn í 2022, jafnvel 2023. Það skýrir þennan mun og hvernig talan fer niður. En er það þá alveg vanhugsað og fellur framkvæmdastigið? Nei, það gerir það nefnilega ekki vegna þess að síðan komum við með samvinnuframkvæmdirnar, PPP-leiðirnar, sem fara af stað á þessu ári, af enn meiri krafti á næsta ári og síðan á þar næsta ári. Þær munu síðan leggjast ofan á þessar tölur og lyfta framkvæmdaplaninu þannig að við verðum með mjög hátt framkvæmdastig hér næstu sjö, átta árin og eiginlega 15, af því að við megum ekki gleyma betri samgöngum, samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem eru 120 milljarðar á 15 árum. (Gripið fram í.)