151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka hér fyrstu lotuna um tímasetningar og fjárfestingar. Ég ætla segja við hv. þingmann að ég deili áhyggjum hennar af því að við náum ekki að nýta tímabil sem er best til fjárfestinga, að hlutirnir verði komnir of mikið í gang, sem er auðvitað jákvætt, að hagvöxtur hafi tekið vel við sér, og ég vona svo sannarlega að það verði. En ég hef áhyggjur af því hvað við erum sein að koma hlutum í gang þrátt fyrir að hlutir séu fullhannaðir. Það er ýmislegt sem spilar inn í; óvæntar ákvarðanir um hluti sem ekki hafa áður verið skyldaðir í umhverfismat af Skipulagsstofnun. Hér er ég að hugsa um veginn um Kjalarnes og eitthvað sem kemur óvænt upp á. Eða einhverjar smávægilegar skipulagsbreytingar, sem taka vissulega ákveðinn tíma, tefjast eða dragast á langinn. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af þessu.

Ég ætla hins vegar að segja að við erum að setja af stað hluta af þeim sex framkvæmdum sem við vorum með heimild fyrir í samvinnuleiðinni. Hornafjarðarfljót verður boðið út fljótlega og framkvæmdir halda þá áfram í því verkefni. Vegurinn um Öxi verður væntanlega líka boðinn út seinna á þessu ári og Ölfusárbrúin í framhaldinu. Láglendisvegur um Mýrdal og göng þar í gegn eru í umhverfismati. Sundabrautin á að fara í umhverfismat. Hún verður stórverkefni og mun örugglega ekki rammast innan þessa tíma. En ég held að ef okkur tekst vel í þessum fyrstu verkum séum við búin að sýna fram á með reynslunni af Speli og Hvalfjarðargöngum og þeirri nýju reynslu sem við þurfum að fara inn í í þessu umhverfi, sem er svolítið ný hugsun, að það hrópi á okkur að nýta þessa aðferð til fleiri framkvæmda.