151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að vegakerfið er ekki bara kerfi ríkisins. Vegakerfið er sennilega allt í allt um 26.000 km, þar af er helmingurinn í umsjá Vegagerðarinnar. Við þekkjum nokkuð greiningu og mat á þeirra vegum og hvað þarf í viðhald og meira að segja utanaðkomandi aðilar hafa greint það, eins og Samtök iðnaðarins í skýrslum sínum, og við höfum svolítið verið að reyna að bregðast við því hér. Hinir 13.000 km eru reyndar ekki allir hjá sveitarfélögunum, þeir eru líka hjá einkaaðilum en langstærsti hlutinn er sveitarfélagavegir. Sumt höfum við verið að styrkja í gegnum styrkvegakerfi, þ.e. hálendisvegi hjá stórum sveitarfélögum sem eru kannski slóðar og á ekkert að byggja upp sem slíka. Svo höfum við verið með eitthvert grátt svæði sem eru þjóðvegir í þéttbýli og verkefni sem heita svokallaðir Skilavegir sem eru lög síðan einhvern tímann fyrir 2010 og við höfum verið að vinna úr því. Ég held að þetta sé upphaflega frá 2005 eða 2006 og hefur Vegagerðin raunverulega haft einhliða heimild til að færa vegi til viðkomandi sveitarfélags og þá í einhverju ásættanlegu ásigkomulagi. Þetta hefur síðan verið unnið á síðustu árum, þessu höfum við verið að greiða úr.

Það er ekki ásættanlegt að segja að allt þetta vegakerfi eigi að vera á ábyrgð ríkisins. Við vitum að þegar við erum að byggja upp gatnakerfi í þéttbýli þá eru lögð á gjöld til þess og það eru lögð á fasteignagjöld til að viðhalda mannvirkjum. Sveitarfélögin hafa að sjálfsögðu fjármuni úr að spila á sama hátt. En viðurkennum það, hv. þingmaður, að það eru sennilega 40 sinnum fleiri metrar á hvern einstakling hér en í Þýskalandi til að standa undir vegakerfinu og þetta er dýrt.