151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Já, ég er sannfærður um að þau áform sem við erum með uppi muni bæta umferðarflæðið stórkostlega á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið Betri samgöngur, sem er samstarfsverkefni ríkis og sex sveitarfélaga, er klárlega til þess fallið. Það er byggt upp þannig að við erum að byggja upp stofnkerfið, við erum að byggja upp almenningssamgöngur og við erum líka að byggja upp fjölbreyttari ferðamáta, þ.e. göngu- og hjólastíga og slíkt. Það sem við höfum séð úr nýju spálíkani sem tekur á ferðatíma er að þetta er að byrja að skila sér. Og já, ég er líka sannfærður um að við komum Sundabrautinni af stað. Hún er komin á stað þar sem hún hefur ekki verið áður. Það er komin sameiginleg sýn á hvar hún eigi að liggja og þá þurfum við bara að fara í næstu skref, sem eru að undirbúa umhverfismat, skipulagsbreytingar og klára þessa sameiginlegu sýn. Og einmitt þegar hún bætist inn í verkefnið Betri samgöngur þá sjáum við að heildarferðatími á svæðinu styttist og umferðaröryggi eykst. Ég er sammála hv. þingmanni að framfarir í samgöngum eigi að meta í lífsgæðum og mannslífum, þ.e. að við spörum fólk, að það slasist ekki og deyi ekki í umferðinni. Það er markmiðið með umferðarörygginu og við eigum að stefna að núllsýn í slysum í umferð, alveg eins og okkur tókst að stefna að núllsýn á sjónum. Við förum að komast þangað. Við trúðum því örugglega ekki að það gæti gerst á sjónum á sínum tíma en það tókst og við getum líka gert þetta í umferðinni. Ég sé fyrir mér að þetta muni ganga eftir. Þetta eru miklar framkvæmdir, þær eru að fara af stað og þær munu skila árangri. (Forseti hringir.) Ef einhverjir ætla að þvælast fyrir okkur í því, hv. þingmaður, þá bjóðum við okkur bara fram í Reykjavík og það verða allir með okkur í því.