151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 og þar er sérstök áhersla á menntun, nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Ég vil nefna það að á kjörtímabilinu höfum við lagt sérstaka áherslu á vísindi, rannsóknir, menningu, listir, íþróttir, æskulýðsmál, stóreflt framhaldsskólana og háskólana og náð markmiðum sem við töldum að væri nánast ekki hægt að ná. Eitt af þeim markmiðum sem við settum okkur var að ná OECD-markmiðinu um fjárframlög til háskólastigsins. Það tókst. Við ætluðum að efla framhaldsskólana þannig að við myndum sjá mjög mikla aðsókn í starfsnám, iðnnám og allt verknám og það hefur tekist.

Virðulegur forseti. Mig langar að fara yfir þau málefnasvið sem heyra undir mig. Ég vil nefna að aukningin á kjörtímabilinu til vísinda- og samkeppnissjóða hefur verið 93% á tímabilinu. Ein meginástæða þess er sú að við höfum ákveðið að fjárfesta í fólkinu okkar. Við höfum ákveðið að fjárfesta í fólki og fjárfesta í menntun og nýsköpun. Ég er sannfærð um að sú fjárfesting mun skila sér mjög vel á næstu árum og við erum mjög stolt af því hvernig við höfum farið inn í allt það umhverfi. Það sama má segja um menningu, listir, íþróttir og æskulýðsmál. Á þessu tímabili hefur aukningin verið 25%. Á Covid-tímabilinu höfum við sérstaklega verið að fjárfesta í menningu og í skapandi greinum. Við höfum einsett okkur það að við ætlum að koma menningunni í gegnum þetta. Þess vegna höfum við farið í tekjufallsstyrki og horfum til framtíðar um það að við getum komist í gegnum þetta.

Það sama má segja um framhaldsskólana okkar. Þar er búið að hækka alla ramma á kjörtímabilinu um 24%. Þetta höfum við gert vegna þess að við höfum talið mjög mikilvægt að efla allt nám sem tengist framhaldsskólanum. Við höfum unnið í því markvisst að minnka brotthvarf og það hefur svo sannarlega gerst á kjörtímabilinu og við erum mjög stolt af því. Aukningin inn á háskólastigið er 14%. Við heyrðum að það þyrfti að fjármagna háskólana betur og við fórum í það og getum verið afskaplega ánægð með hvernig okkur hefur tekist til.

Þegar við fjöllum um ríkisfjármálaáætlunina þá byggir hún auðvitað á þeim góða grunni sem við höfum skapað og horfir til framtíðar. Menntakerfið okkar og öll menning er lykillinn að framúrskarandi samfélagi. Við höfum séð að þeim samfélögum sem ná utan um þessa málaflokka vegnar almennt betur og þess vegna höfum við farið í þessa fjárfestingu og verið er að fjárfesta til framtíðar. Í þeim málaflokkum sem um er að ræða höfum við ákveðið að það þurfi að endurskoða til að mynda framhaldsskólastigið og háskólastigið miðað við raunaukningu, þ.e. þá nemendur sem koma inn í kerfið, og það verður endurskoðað. Það sama má segja um framfærslu námsmanna. Við erum núna að leggja núna lokahönd á tillögur hvað það varðar. Ég er mjög bjartsýn á alla þessa málaflokka, þeir eru að eflast og þeir hafa gert það allt kjörtímabilið og munu halda áfram að gera það.