151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég fagna þessum afdráttarlausu orðum. Starfsnámið verður að Reykjum. Það eru ótrúlega mikilvæg skilaboð að senda héðan út til okkar allra sem berum hag þessarar mikilvægu starfsemi fyrir brjósti. Mig langaði kannski að spinna þráðinn áfram þar sem hæstv. ráðherra sleppti honum og taka dálítið forskot á sæluna því að það sem hæstv. ráðherra er að tala um varðandi þetta samstarf ólíkra aðila þegar kemur að innlendri matvælaframleiðslu held ég að sé einn af lyklunum að þeirri framtíð sem við viljum stefna að, sem er einmitt uppbygging innlendrar matvælaframleiðslu. Það er í takt við það að við viljum sjálfbæra framtíð út frá loftslagsmarkmiðum, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og matvælastefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér. Ég er einmitt að klára og koma núna í dreifingu tillögu til þingsályktunar um matvælaframleiðslu og menntunarklasa akkúrat á þessu svæði þar sem allir þessir aðilar sem hæstv. ráðherra talaði um eru lykilaðilar í því að formfesta betur þessa klasahugsun um innlenda matvælaframleiðslu og menntun tengdri henni. Ég held að þannig eigum við að hugsa þetta. Við eigum að hugsa: Hvernig getum við menntað fólk úti í feltinu? Hvernig getum við nýtt okkur landgæðin, ekki síst á þessu svæði, inn í það nám og starf að sjálfsögðu sem við þurfum til að ná þessari framtíð með samvinnu og samstarfi við alla skólana, bæði á háskólastigi en ekki síst á framhaldsskólastigi og það góða starf sem er unnið í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Mig langar til þess, án þess að hæstv. ráðherra hafi séð málið, það kemur, að vita hvort hún er sammála mér um þessa sýn og ég mun þá að sjálfsögðu túlka það sem stuðning við tillögu mína.