151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:14]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Framtíðarsýn ríkisstjórnar birtist einna sterkast í fjármálaáætlun hennar. Hér birtist hún hvað menntamálin varðar sem hin sama og í fyrra, í sjálfu sér litlar efnislegar breytingar. Í reynd er eins og hinar fordæmalausu aðstæður séu ekki til staðar þegar fjármálaáætlun er rýnd, a.m.k. hvað menntamálin varðar. Hæstv. menntamálaráðherra hefur verið, ef svo má segja, ráðherra stórra orða, en orð án fjármagns í pólitík eru nú kannski ekki mikil að innihaldi. Í þeim málaflokkum sem heyra undir hæstv. menntamálaráðherra, sem eru menntunin vitaskuld, menningin og íþróttirnar, er enga stórsókn að finna í þessari fjármálaáætlun. Samt vitum við t.d. að þegar atvinnuleysi er jafn mikið og raun ber vitni og það blasir við að atvinnuleysistímabil þess hóps sem er að verða fyrir þyngsta högginu er að lengjast allverulega þá leitar fólk í nám. Það kostar og ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. menntamálaráðherra um það hvernig bregðast eigi við því sérstaklega.

Framhaldsskólastigið horfir fram á skerðingu á tímabilinu. Við erum að mæta þessari kreppu með skerðingu til menntamála á framhaldsskólastiginu. Menntun virðist ekki vera leiðin út úr kreppunni samkvæmt fjármálaáætlun og tölurnar hvað varðar menntaskólann og framhaldsskólann tala sínu máli þar. Þessi staða framhaldsskólanna kemur kannski ágætlega heim og saman við framkvæmd t.d. í grunnskólunum á samræmdu prófunum um daginn, sem voru slegin af í ár þrátt fyrir að þau séu skyldubundin samkvæmt lögum. Stjórnvöld eru utan marka þegar staða grunnskólabarna er skoðuð. Okkar kerfi stenst engan samanburð við búnaðinn sem notaður er til samræmdra prófa á Norðurlöndunum og það hefur lengi legið fyrir. Ég velti því fyrir mér hvernig ráðherra ætlar að bregðast við því (Forseti hringir.) út frá þessari fjármálaáætlun og hvernig hún ætlar að tryggja stöðu framhaldsskólanemenda og grunnskólanemenda samkvæmt þeim tölum sem liggja fyrir í fjármálaáætlun.